137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um það að hagræðing og sparnaður eru á fullri ferð innan ráðuneyta. Hvert einasta ráðuneyti er nú að snúa við hverjum hlut hjá sér til þess að athuga hvar hægt er að hagræða og spara. Menn munu sjá það þegar ríkisfjármálin koma hér inn í þingið í frumvarpsformi að gerð er mjög hörð atlaga að rekstri ríkisstofnana, kannski harðari en hægt er að ætlast til að ráðuneytin geti náð fram. Engu að síður er það markmiðið að gera það. Það eru sett ákveðin leiðarljós í því efni, hvernig hægt er að ná niður rekstrinum, og ég held að það sé hægt ef menn vinna eftir því og samræma vinnubrögð í því efni.

Það er heildarsýn í þessu frumvarpi og það hefur líka komið í ljós, og er í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar, að ráðuneytum á að fækka úr tólf í níu á kjörtímabilinu. Stefnt er að því að til verði eitt atvinnuvegaráðuneyti, hugsanlega þegar á næsta ári, og að einnig verði lögfest hér innanríkisráðuneyti (Forseti hringir.) — dóms- og kirkjumálin verði sameinuð og samgönguráðuneyti (Forseti hringir.) og margir málaflokkar innan þess í eitt innanríkisráðuneyti (Forseti hringir.) sem mun þá koma til framkvæmda á næsta kjörtímabili en verður lögfest á þessu kjörtímabili.