137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[16:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir útskýringu á sínu máli sem snýr að Evrópumálum og Icesave-skuldbindingum. Ég gat ekki heyrt annað á hv. þingmanni en að hann væri ekki reiðubúinn til að lýsa yfir stuðningi við það að ríkisstjórnin staðfesti Icesave-samkomulagið. En ég vil minna hv. þingmann á umfjöllun í Ríkisútvarpinu á laugardegi fyrir hálfum mánuði þar sem fjallað var um afstöðu einstakra þingmanna Vinstri grænna til málsins, þannig að annaðhvort fer Ríkisútvarpið með rangt mál, sem ég hef satt að segja ekki reynt útvarpið oft að, eða hugsanlega gæti verið um einhvern meinlegan misskilning að ræða í svo stóru máli sem þessu.

Ég vil spyrja hv. þingmann, af því að við erum að tala um eitt stærsta mál sem þingið hefur horfst í augu við í lýðveldissögunni: Hver er afstaða hv. þingmanns til þess að ekkert hámark skuli vera á skuldbindingum Íslands í því samkomulagi sem um er rætt, þ.e. að íslenskur almenningur eigi að bera alla ábyrgðina ef illa fer með tilheyrandi afleiðingum eins og við þekkjum öll? Ég vil líka spyrja hv. þingmann að því hvort honum finnist eðlilegt að skorið verði úr ágreiningsefnum sem geta komið upp vegna þessa samkomulags fyrir breskum dómstólum. Mér finnst það algjörlega með ólíkindum ef við þurfum að fara að senda sækjendur okkar eða málsverjendur til Bretlands til að verja hagsmuni þjóðarinnar í þessum efnum þar.

Varðandi Evrópusambandið vil ég minna hv. þingmann á það að á forsíðu Fréttablaðsins ekki fyrir löngu síðan var einmitt haft eftir hæstv. forsætisráðherra að vel hefði verið tekið í ESB-plan ríkisstjórnarinnar. Ég vil minna hv. þingmann á að hann á aðild að umræddri ríkisstjórn (Forseti hringir.) þannig að í þessum efnum er náttúrlega ekki bæði hægt að eiga kökuna og éta hana.