137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[22:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að frumvarp til laga um hvali er komið fram í þinginu og óska sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til hamingju með það. Það kemur til endurnýjunar á lögum sem eru ívið eldri en ég, lög frá 1949, og kominn tími til að lögfesta veiðarnar í því umhverfi sem við búum við í dag.

Ég fagna því líka að í lagafrumvarpinu er sett fram það markmið að sameina bæði verndun og nýtingu og að verið er að tryggja þann rétt okkar að nýta sjávarauðlindina hvað varðar hvalveiðar og er mikilvægt að halda því til haga að við höldum þessum rétti þrátt fyrir töluverða pressu í alþjóðlegu umhverfi um að við hættum hvalveiðum.

Ég verð að segja það hreinskilnislega að þegar ég sem skólastjóri var á ferðalagi í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og heimsótti þar skóla og sá hvernig fjallað var um hvali sem gæludýr þá fylltist ég ákveðinni svartsýni á að hér yrðu hafnar hvalveiðar að nýju. Það var einfaldlega þannig að skólabörn í miðri Washington-borg voru að teikna myndir af hvölum, eignuðust hvali sem sagðir voru hvalir á Íslandsmiðum og greiddu jafnvel framlög til að fylgjast með þessum hvölum. Á einhvern hátt virkaði þetta á mig sem alveg ótrúleg firring að hægt væri að ljúga því að börnum að það væri verið að fylgjast með ákveðnum hvölum í Norðurhöfum og hafa af þeim peninga til að vernda þessa hvali.

Sjálfur hef ég alltaf litið á hvali sem hluta af lífríkinu sem við eigum að nýta okkur en auðvitað eigum við að ganga að lífríkinu þannig að við göngum ekki á hvalastofninn, að við tryggjum verndina og þess vegna fagna ég því að hér er reynt að setja lagaramma sem gerir hvort tveggja hvað þetta varðar.

Ég fagna því líka að í 1. gr. kemur skýrt fram að þeir sem fá leyfi til að nýta hvalakvóta eða fá að stunda veiðar myndar ekki eignarrétt eða ígildi eignarréttar eins og kvótakerfið hefur gert, að það sé afdráttarlaust tekið fram að hér fá menn eingöngu afnotarétt. Ég fagna því líka að það sé sett á þetta veiðileyfisgjald þannig að þeir sem nýta auðlindina þurfi að greiða fyrir það og bera kostnaðinn sem fylgir því að vel sé staðið að málum og að sú þjónusta sem hvort heldur Fiskistofa eða Matvælastofnun inna af hendi í sambandi við eftirlit hvort sem er með veiðum eða vinnslu, sé greidd af viðkomandi fyrirtækjum sjálfum.

Mér brá svolítið þegar ég las frumvarpið af því að það er mikið af ákvæðum þar sem hæstv. ráðherra er falið að túlka lögin með ýmsum hætti og leyfin eru gefin út af hæstv. ráðherra eins og verið hefur um áraraðir. Sjálfsagt er óhjákvæmilegt að hafa valdsvið ráðherra svo viðamikið, sérstaklega í byrjun meðan við erum að læra og laga og nýta þá reynslu sem við erum að skapa okkur að nýju við hvalveiðar.

Ég treysti á það, vitandi hversu vel hefur verið staðið að hvalarannsóknum á undanförnum árum og hversu vel menn hafa fylgst með hvalastofnunum í gegnum árin í alþjóðlegu samstarfi og með rannsóknum á heimavelli, að hér sé hvergi verið að ógna hvalastofninum, árlegur kvóti sé hæfilegur og það er tryggt enn frekar í 6. gr. þessa frumvarps með því að þegar kvóti hefur verið tilkynntur hafa menn andmælarétt og geta gert athugasemdir við kvótann og fengið til þess ákveðinn tíma þannig að ráðherra tekur ákvörðun að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar og eftir ábendingar frá þeim sem vilja gera athugasemdir varðandi magnið.

Um leið ber að fagna því að það er öryggisákvæði í sömu 6. gr. þar sem kveðið er skýrt á um það að á hverjum tíma skuli meta heildarhagsmuni af slíkum veiðum. Mikil umræða hefur verið um það að veiðar á hval geti spillt fyrir ferðaþjónustu og það er auðvitað bæði skylt og nauðsynlegt að fylgjast vel með því hver áhrifin verða og reyna þá að mæla með einhverjum hætti hvaða hagsmunir eru þar mikilvægastir. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að þetta fari mjög vel saman og ég er óhræddur við það að við veiðum hval og ég held af fenginni reynslu, hafandi farið í hvalaskoðun, að það sé engin hætta á því að þeir verði margir sem hætta við að koma til Íslands vegna þess að við séum hvalveiðiþjóð. Að minnsta kosti komi jafnmargir hingað til að fylgjast með hvalveiðunum og gera þá jafnvel hvort tveggja, að fara í hvalaskoðun, fylgjast með því hvernig hvalurinn hegðar sér í lífríkinu, og fá um leið tækifæri til að sjá hvernig unnið er úr hvalaafurðum.

Það er líka tekið fram í frumvarpinu að gæta þurfi að því að hagsmunir hvalaskoðunar og þeirra sem veiða hval geti farið saman og menn haldi ákveðnum svæðum utan við veiðisvæðin til að tryggja það að hvalaskoðun geti farið fram því að það er augljóst að það er gríðarlega eftirsótt að fá að fara og fylgjast með hval við strendur landsins.

Það er tekið fram hér að úthlutun á veiðileyfum sé aðeins til eins árs í senn og ég hef ákveðnar efasemdir við það ákvæði. Ég held að það sé mikilvægt að menn úthluti hvalveiðileyfunum til lengri tíma, jafnvel þó að þau séu framlengd um ákveðinn tíma og það sé fyrirvari líka um magn frá ári til árs að fenginni veiðireynslu og könnunum á lífríkinu á hverjum tíma, en ég held að það sé mikilvægt fyrir atvinnugreinina sem slíka að menn viti það aðeins lengra fram í tímann en eitt ár í senn og það sé mikilvægt fyrir þá sem stunda þessa vinnu eða hafa það sem möguleika að vinna við þessa grein. Þar komum við kannski að því sem skiptir mestu máli í augnablikinu að við erum að frétta af því að búið sé að veiða fyrstu tvö stórhvelin eða langreyðarnar og þær séu á leiðinni í land. Það minnir okkur á að hér bíður fólk sem þegar hefur verið ráðið til starfa, jafnvel hátt á annað hundrað manns sem fær vinnu næstu mánuðina í tengslum við þessar veiðar og það er ómetanlegt á þessum tíma að slíkt komi fram. Við vonum svo að það gangi vel að selja afurðirnar þannig að það geti orðið framhald á þessu.

Það er sett gjald á þessar veiðar. Eins og ég sagði áður finnst mér sjálfsagt að kostnaður við þessar veiðar sé greiddur af greininni sjálfri. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort upphæðin er hæfilega há en ég tel að það sé nauðsynlegt núna þegar við tökum upp hvalveiðar að við höfum einmitt þetta kerfi að þeir sem fá heimild til að nýta þjóðarauðlindir okkar borgi hæfilegt afgjald fyrir þá notkun.

Ég vil ítreka þá skoðun mína og það hefur verið sagt svona í gríni og alvöru að þegar menn koma til landsins og fara í hvalaskoðun og annað, þá geti farið ágætlega saman eins og ég segi og menn hafa sagt að skoða, skjóta og éta. Sjálfur hef ég farið í hvalaskoðun þar sem menn hafa borðað hval um borð í sömu skipunum og stunda hvalaskoðun og mér fannst það leggjast ágætlega í þann útlendingahóp sem ég var með. Ég hef raunar gert það tvisvar sinnum. Í annað skiptið var það ekki alveg marktækt því að þá vorum við með Færeyingum, Grænlendingum og Íslendingum sem allir eru vanir hvalveiðum en í hitt skiptið var ég með breskum viðskiptamönnum og ég gat ekki séð annað en þeim líkaði mjög vel að á hlaðborðinu væri einmitt hrefna til að borða í þeirri hvalaskoðunarferð. Ég held að þetta sé meira spurning um með hvaða hætti við kynnum þetta, að við tryggjum rétt okkar til að nýta þessa sjávarauðlind og nýtum áralanga hefð fyrir því að nýta hval til matar.

Ég fagna því að fram er komið frumvarp til að ná utan um þetta og veit að það mun fá góða umfjöllun og þá gagnrýna umfjöllun vegna þess að þetta er auðvitað farið inn á netið og menn geta gert athugasemdir og komið með tillögur um að skapa þessari atvinnugrein einhverja framtíð og eðlilegt umhverfi. Ég fagna því um leið að margt fólk skuli geta farið að vinna við vinnslu á hvalaafurðum að nýju.