137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

hvalir.

112. mál
[23:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og koma aðeins aftur í ræðustól af tilefni ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar og því sem hann lagði út af í fyrstu greinum frumvarpsins og benda á að nú þegar verið er að reikna með því í þessu frumvarpi að atvinnuleyfin verði gefin út til eins árs í senn, sem er algerlega útilokað fyrir nokkra starfsmenn að vinna eftir, er verið að afnema atvinnuleyfi sem gefið var út árið 1949. Það er búið að vera í gildi í 60 ár og hefur aldrei verið afturkallað. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra og ráðuneytin hafi skoðað það alveg sérstaklega hvaða lagaleg rök eru að baki því að nema úr gildi atvinnuréttindi manna sem verið hafa í gildi í 60 ár og hafa aldrei verið endurútgefin á þeim tíma, eins og atvinnuleyfi Hvals hf. Það var gefið út árið 1949 og hefur aldrei verið endurnýjað. Hvaða breytingar hefur þetta í för með sér og hver er réttarstaða viðkomandi fyrirtækja?

Þetta leiðir einnig hugann að stöðu þeirra sem stunduðu hrefnuveiðar á árum áður og voru komnir í þann farveg í hrefnuveiðunum að búið var að gefa út heildarkvóta. Þeir sem stunduðu þessar veiðar voru komnir með sinn kvóta á þeim tíma og búið að skipta heildarveiðinni upp á milli þeirra. En við þær breytingar sem gerðar hafa verið á hvalveiðum á þessu ári eru þau réttindi numin úr gildi. (Forseti hringir.) Það vekur einnig upp spurningar um réttarstöðu þessa hóps.