138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samgönguáætlun.

[13:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mig langar að beina spurningu til hæstv. samgönguráðherra um samgönguáætlun. Spurningin er í sjálfu sér einföld, hún er bara: Hvar er hún?

Það átti að leggja fram endurskoðaða samgönguáætlun á síðasta ári, fyrir ári sem sagt, á haustþinginu þá. Þá gerðist ýmislegt sem kannski kom í veg fyrir að það væri hægt. Margir höfðu skilning á því og þeirri atburðarás. Síðan kom fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar í sumar að samgönguáætlun væri væntanleg á þessu haustþingi. Nú er það hálfnað og samgönguáætlun er ekki enn komin fram.

Það hlýtur að vera eðlilegt að spyrja, og margir farnir að spyrja náttúrlega mjög víða: Hvar er áætlunin? Þetta er sérstaklega ankannalegt fyrir samgöngunefnd vegna þess að henni er ætlað að ræða þetta stefnumótandi plagg. Þetta er auðvitað plagg sem eyðir óvissu sem er um allt land í samgöngumálum vegna þess að það er ekkert fé til nýframkvæmda á næsta ári ef mér reiknast rétt til og þá er það auðvitað þetta plagg sem eyðir óvissunni sem blasir við. Verða yfirleitt einhverjar nýframkvæmdir á næstu árum? Samgönguáætlun er plaggið sem við þurfum til að geta tekið afstöðu til þeirrar spurningar.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er eitthvað að frétta af þessu?