138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

sveitarstjórnarlög.

15. mál
[20:20]
Horfa

Flm. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er þetta mikil breyting. Samkvæmt því sem fram kemur hér, að borgarfulltrúum í Reykjavík yrði fjölgað í 61, sé ég fyrir mér að KR-ingar ættu fulltrúa í borgarstjórn, Fylkismenn ættu fulltrúa í borgarstjórn og alls konar fólk ætti fulltrúa í borgarstjórn sem er mjög mikilvægt. Vissulega er þó það sjónarmið sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir viðraði þess virði að skoða og að sjálfsögðu má gera ráð fyrir að það verði skoðað að taka þetta í áföngum, sérstaklega þegar komið er upp í svona háa tölu eins og 47 eða 61 aðalmann. Ég mundi ekki setja mig á móti því svo lengi sem aukningin til að byrja með yrði umtalsverð þannig að það sæist greinilega að verið væri að taka stórt skref í lýðræðisátt.

Ég á erfitt með að sjá að sveitarfélög með innan við þúsund íbúa hafi færri en sjö aðalmenn. Mér finnst valdið vera komið á allt of fárra hendur ef þeir eru færri en sjö. Þá eru kannski fjórir í meiri hluta og fjórir sem ráða öllu í heilu sveitarfélagi er ekki sérlega há tala. Vissulega er ég þó meira en tilbúinn til þess að setjast niður með þingmönnum Vinstri grænna og allra sem það vilja til þess að fara yfir þessar tölur og reyna að finna út sameiginlegan flöt á að þoka þessu mikilvæga máli áfram.