141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

hæstaréttardómur um gengislán.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn hefur þurft að grípa til fjölmargra aðgerða til að koma til móts við heimili og fyrirtæki í landinu og vissulega hafa margar þeirra skilað þónokkrum árangri. Að minnsta kosti sýnir heildarniðurstaðan okkur að í júní á þessu ári var staða útlána hjá þremur stærstu viðskiptabönkunum hér á landi til fyrirtækja þannig að um 20% eru í vanskilum. Í desember 2009 var talan 49%. Þessu miðar í rétta átt. Vanskilum heimila fækkar sömuleiðis og skuldastaðan er að lagast þannig að okkur miðar í rétta átt. Það er ekki hægt að mála hlutina upp eins og hv. þingmaður gerir. Það sýna tölurnar einfaldlega.

Virðulegi forseti. Það þýðir ekki að engin verk séu óunnin á þessu sviði, svo sannarlega ekki. Það er fjölmargt sem við þurfum að fara í á þessu þingi í vetur og á næstu þingum til að tryggja að atvinnulífið hér í landi (Forseti hringir.) geti blómstrað eins og við viljum sjá það og heimilin í landinu búið við viðunandi lífskjör.