142. löggjafarþing — 22. fundur,  4. júlí 2013.

störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við höfum rætt veiðigjöldin undanfarna daga og þann mikla afslátt sem þar er gefinn til útgerðarmanna í ár og á næsta ári upp á 10 milljarða. Á fundi atvinnuveganefndar í gærkvöldi töldu menn rétt, meiri hlutinn, að bæta um betur án þess að styðja það neinum útreikningum, rökum eða með einum eða neinum hætti, ekki komið með neitt frá atvinnuvegaráðuneytinu til að styðja þetta, engir útreikningar lágu þar að baki. Menn fundu það út korter fyrir þinglok að hægt væri að afnema algjörlega sérstakt veiðigjald á kolmunna án þess að neitt lægi þar að baki sem rökstyddi það og að skuldaafsláttur væri um 400 millj. kr. lægri en menn höfðu áætlað.

Það er mjög sérstakt að þessar tölur stemma saman, hvernig sem það kemur til. Menn töluðu um að kolmunninn hefði gefið um 459 milljónir og vanáætlaður skuldaafsláttur næmi um 400 milljónum. Það er mjög sérstakt að menn finni svona út en geti ekki sýnt okkur nefndarmönnum neina útreikninga eða eitt eða neitt sem styður enn frekari afslátt af sérstöku veiðigjaldi til útgerðarinnar.

Einhvern veginn er það þannig að manni kemur í hug að menn hafi kannski aðeins þurft að strjúka ákveðnum geira í uppsjávargeiranum og þetta hafi verið eitthvað sem átti að róa þann geira. Ef menn hafa verið að tala um vönduð vinnubrögð á þingi flokkast þetta varla til vandaðra vinnubragða með gegnsæi og tölulegum staðreyndum til að byggja á með upplýstum ákvörðunum. Ég hvet menn til að skoða þetta nánar og skora á formann atvinnuveganefndar (Forseti hringir.) að styðja þetta með einhverjum útreikningum og rökum.