144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu.

257. mál
[17:16]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Í máli ráðherra kom fram að haft hefði verið víðtækt og mikið samráð við hagsmunaaðila og viðkomandi stofnanir og tekið hefði verið tillit til ábendinga frá þeim aðilum. Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvernig á því stendur að forstöðumaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins til margra ára eða áratuga og framkvæmdastjóri Blindrafélagsins gera alvarlegar athugasemdir við þessar áætlanir. Hefur samráðið við þessa aðila ekki skilað sér eða athugasemdir þeirra inn í frumvarpið?

Það eru starfandi mjög fjölmenn, sterk og reynd félagasamtök í þessum geira eins og Blindrafélagið sem ég nefndi áðan. Þetta eru hópar fólks sem rekur stofnanir sem eru ekki reknar í ágóðaskyni heldur til þess ætlaðar að veita mjög sérhæfða þjónustu sem er byggð á reynslu þeirra sem þar starfa, oftar en ekki reynsla á eigin skinni. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að hlustað sé sérstaklega eftir því sem þaðan kemur.

Ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hverju sætir sú gagnrýni sem er óneitanlega fyrir hendi?