144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:46]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta við í sambandi við árangur sem hefur náðst. Ég held að hann hafi að hluta til, vonandi, náðst vegna ákveðinna viðhorfsbreytinga. Það sem ég held, og ég get talað sem foreldri sem hefur verið virkur þátttakandi í starfi foreldrasamtaka eða fylgst með þeim og verið tengdur inn í það núna samfellt í 24 ár vegna sóknar barna minn í grunnskóla, er að virk foreldrasamtök í skólum og sú fræðsla sem þar fer fram, t.d. þegar nemendur byrja í skóla o.s.frv., sé mikilvæg vegna þess að það skilar sér inn á heimilin og gerir foreldra kannski betur meðvitaða um að þeir þurfa að vera ábyrgir í þessum efnum, og það skilar sér svo áfram.

Við skulum líka fagna varlega þó að við höfum ákveðnar vísbendingar um að náðst hafi viss árangur í sambandi við áfengið og unglinga, því að hann hefur ekki náðst alls staðar. Það er kannski ekki framför í því fólgin að það dragi örlítið úr neyslu áfengis í yngstu aldurshópunum eða að upphafsaldurinn hækki, eða a.m.k. lækki ekki, ef önnur efni og jafnvel verri að einhverju leyti fylla í skörðin. Það þarf því að hafa það í huga líka, verandi þó sammála hv. þingmanni um að það er gríðarlega mikilvægt að fresta því eins og kostur er, hvert ár sem unnið er í þeim efnum er mikilvægt.

Að lokum þetta: Hvort skiptir heildarneyslan máli eða hvernig er neytt? Ég hef aldrei séð mjög haldbær rök fyrir því að vandamálin séu ekki nokkurn veginn í línulegu samhengi við magnið sem neytt er, þ.e. að allt talið um vínmenninguna o.s.frv., þegar það er skoðað betur kemur í ljós að það er tiltölulega svipað hlutfall þeirra sem á annað borð neyta áfengis sem lenda í vandræðum. Og hluti af hinni aðhaldssömu stefnu snýr að þessum hópi, 20–35% sem (Forseti hringir.) við getum fjallað um sem áhættuhóp í þeim efnum, að því a.m.k. að reyna að lágmarka skaðann og minnka vandamálin.