144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um það, ég er ekki viss um að ég telji skynsamlegt að þeir fáu lífeyrissjóðir okkar sem ráða yfir þessum miklu fjármunum eigi að vera að standa í fjárfestingum af því tagi. Ég held að 20% heimildin hafi verið neyðarráðstöfun á sínum tíma en auðvitað horfir málið öðruvísi við ef ætlunin væri sú að lækka heimildina í óskráðum bréfum að sama skapi og verið væri að opna heimild til kaupa á bréfum af þessu tagi, því að þá væri sannarlega verið að auka kröfur til eignasafnsins.

Ég er sammála hv. þingmanni um að vandasamt sé að ávaxta þessa 2.700 milljarða og hættan er sú að við séum að hverfa frá sjóðasöfnun, sem hv. þm. Willum Þór Þórsson nefndi áðan, í raun og veru yfir í gegnumstreymiskerfi vegna þess að sjóðirnir hafa ekkert annað að kaupa en bréf opinberra aðila og ef sjóðurinn er bara orðinn bréf opinberra aðila, skuldaviðurkenningar frá ríki og sveitarfélögumi verða sjóðirnir í raun eðlislíkir gegnumstreymissjóðum, því að það eru þá aðeins opinberir aðilar og fyrirheit þeirra um borgun í framtíðinni sem reka kerfið.

Þvert á það sem Seðlabankinn hefur nefnt um að lífeyrissjóðirnir eigi að fá heimildir til að fjárfesta erlendis eftir að leyst hefur verið úr þrotabúunum tel ég að það eigi að vera forgangsmál í höftum að hleypa lífeyrissjóðunum út með hluta af fjármunum sínum til fjárfestingar, til að dreifa áhættu og til að við eigum eitthvað utan hagkerfis okkar til að treysta á ef áföll dynja yfir hér. Ég held að það væri mikilvægasta skrefið sem við gætum tekið til að auka valkost lífeyrissjóðanna í fjárfestingumn og ég er sammála hv. þingmanni að það er mikilvægt að gera.