146. löggjafarþing — 22. fundur,  31. jan. 2017.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

70. mál
[18:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt málið. Við höfum mjög fá verkfæri til að knýja ráðherra til að sinna störfum sínum samkvæmt lögum, samkvæmt þingsköpum og að sjálfsögðu samkvæmt stjórnarskrá.

Í raun og veru er Landsdómur eina verkfærið sem við höfum til að láta ráðherra taka einhverjum afleiðingum fyrir að sinna ekki sínum lögbundnu skyldum eða vanrækja þær eða hreinlega misbeita valdi sínu sem ráðherrar.

Það er miður. Ég vil heldur ekki að Alþingi sé einhvers konar saksóknari ráðherra. Ég vil bara að Alþingi hafi einhver almennileg tæki til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald því að þrískipting ríkisvaldsins er stórfurðuleg. Hún heldur ekki almennilega vatni þegar kemur að því að það eigi að vera einhvers konar jafnvægi á milli þessara þriggja arma. Hingað til hefur það verið þannig, að mínu mati, að framkvæmdarvaldið hefur bara getað valtað endalaust yfir þingið og þingið hefur verið varnarlaust og ráðþrota gagnvart því þegar það gerist. Það er nokkuð sem mér finnst að taka þurfi til gagngerrar skoðunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en einnig í stjórnarskrárnefnd, sem ég vona að taki nú aftur til starfa miðað við yfirlýsingar í stjórnarsáttmálanum, þ.e. nefnd um nýja stjórnarskrá. Mögulega gæti hún tekið á þeim vanda sem við erum í, sem er sá að það eru í raun engar leiðir til að láta ráðherra sæta ábyrgð fyrir að misbeita veldi sínu, nema náttúrlega Landsdómur. En eins og hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson minntist á er það endalaust hneykslismál að komið hafi til skoðunar að draga ráðherra til ábyrgðar fyrir stórkostleg möguleg eða sönnuð embættisafglöp í starfi.