149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:54]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég tel að þetta sé tæki sem sé gott að hafa og hafi reynst okkur vel. Ég er ekki sammála Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hvað þetta varðar. Þeir taka mjög afgerandi afstöðu til þess að leggja eigi þetta niður.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að nú þegar krónan er að gefa eftir er kannski rétti tíminn kominn til að stíga einhver varfærnisleg skref. Ég ætla að vera sammála hv. þingmanni um það. En ég tek undir það líka og segi aftur að þetta er mjög mikilvægt stjórntæki sem skiptir okkur sköpum. Við þekkjum þessa sögu með snjóhengjuna og hvað þetta reyndist okkur afar erfitt og þungbært. Ég vona að þetta verði tæki sem við getum haft í handraðanum ef aðstæður breytast. Við erum það lítið hagkerfi að það er nauðsynlegt að mínu mati.