149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:58]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það var ágæt yfirferð yfir tillögurnar hjá nefndinni í máli hv. þingmanns. En mig langar til að koma inn á tillögu sjö sem fjallar um innflæðishöft og snýst í raun um að festa í sessi innflæðishöft, ákveðna tegund gjaldeyrishafta, ekki bara sem tæki sem Alþingi gæti tekið upp, ef þörf væri á, heldur væri þetta almennt aðgengilegt hagstjórnartæki fyrir Seðlabankann. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess að mér heyrðist á máli hans hann vera fylgjandi því fyrirkomulagi að viðhalda krónunni með núverandi verðbólgumarkmiðum og frjálsu fræði, þ.e. frífljótandi viðskiptum, hvernig hann geti réttlætt það fyrir t.d. sprotafyrirtækjum og fyrirtækjum í ýmiss konar útflutningsrekstri og hvaðeina hér á Íslandi að viðhalda þessu haftafyrirkomulagi.