150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

náttúruverndarmál.

[15:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Herra forseti. Hér er í rauninni spurt með hvaða móti við eigum að ná betri árangri. Ég hef rakið það að unnið er að endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem fer að sjálfsögðu fyrir ríkisstjórn þegar að þeim tímapunkti kemur. Við Vinstri græn settum okkur um helgina það markmið að ganga lengra en að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Það er metnaðarfullt en það er líka afskaplega skynsamlegt að gera þetta, þ.e. að við bindum meira kolefni en sem nemur nettólosun okkar á þeim tímapunkti. Þar þurfum við að grípa til allra mögulegra aðgerða. Það kann vel að vera að það megi gera breytingar á búvörusamningum og ýmsu sem lýtur að landbúnaðinum. Ég get algjörlega tekið undir með hv. þingmanni að slíkt megi skoða. Það er hins vegar nýbúið að ganga frá endurskoðun búvörusamninga við sauðfjárbændur og núna er unnið að því við aðrar búgreinar. Það þarf náttúrlega að skoðast í því heildarsamhengi.