150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[15:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir áhuga hennar á þessu máli og fyrir að efna til umræðu um íslenskt bankakerfi og sölu á hlutum ríkisins í bönkum.

Hv. þingmaður er fyrrverandi ráðherra sem einmitt mælti fyrir frumvarpi fyrir nokkrum árum, árið 2012, þegar hv. þingmanni þótti orðið tímabært að fara að huga að sölu fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins. Þá mælti hv. þingmaður fyrir frumvarpi sem varð að lögum og heitir í dag lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Í framsöguræðunni sagði hv. þingmaður á þeim tíma, með leyfi forseta:

„Með vísan til þessa eru ekki taldar forsendur til þess að ríkið verði langtímaeigandi eignarhluta í fjármálafyrirtækjum heldur losi um þá með sölu.“

Reyndar var ríkið ekki eigandi nema að 5% hlut í Íslandsbanka á þeim tíma þannig að þarna var frekar verið að horfa á sölu eignarhluta í Arion banka og Landsbanka, en alveg skýr vilji hv. þingmanns birtist fyrir sex árum til að fara að vinna í því að losa um eignarhald ríkisins á bönkum sem varð til vegna hrunsins. Þess vegna skýtur dálítið skökku við þegar sami hv. þingmaður kemur hér upp núna og segir fjármálaráðherra vera í miklum asa. Það eru liðin sex ár frá því að hv. þingmaður mælti sem fjármálaráðherra fyrir frumvarpinu.

Ég ætla að fara aðeins yfir stöðu þessa máls. Það er rétt að það er hlutverk stjórnvalda að tryggja umhverfi fyrir heilbrigt og stöðugt fjármálakerfi með tryggri umgjörð, virku regluverki og aðhaldi. Ríkisstjórnin lagði í stjórnarsáttmála mikla áherslu á að vinna við framtíðarumgjörð fjármálakerfisins yrði sett í forgang og að sú vinna myndi byggja á Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið í heild. Sú hvítbók leit dagsins ljós í nóvember í fyrra og þar var að finna fjölmargar tillögur um aðgerðir sem voru til þess fallnar að undirbyggja breytingu á eignarhaldi ríkisins til framtíðar og til þess að styrkja betur umgjörð með markaðnum. Við höfum verið að vinna að þessum tillögum. Ég get nefnt vinnu við að lágmarka skaðleg áhrif innflæðishafta, auk þess sem frumvarp um afnám bankaskatts er nú í þinglegri meðferð, lögð er mikil áhersla á það í hvítbókinni. Það frumvarp mun veita fjármálafyrirtækjum svigrúm til að lækka útlánavexti og hækka innlánsvexti til viðskiptavina. Sú breyting myndi augljóslega bæta afkomu heimila og rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Þá verður á þessu löggjafarþingi lagt fram lagafrumvarp til að takmarka fjárfestingarbankastarfsemi sem hv. þingmaður kemur hér inn á og við vitum að nefndir hafa verið að störfum við að skoða þau mál sérstaklega og ákveðna tillögu sem frumvarpið byggir á. Drög að því frumvarpi verða birt í samráðsgátt stjórnvalda á næstu vikum en áform um framlagningu málsins hafa þegar verið kynnt. Auk þess verður lagt fram mikilvægt og umfangsmikið lagafrumvarp til að innleiða Evróputilskipun um endurreisn og skilameðferð fjármálafyrirtækja sem eykur verulega úrræði stjórnvalda til að bregðast við ef bankar lenda í áföllum og takmarka tjón samfélagsins af þeim. Með vísan í allt þetta tel ég að við höfum unnið ötullega að þeim málum sem mestu skipta til að undirbúa breytt eignarhald ríkisins.

Varðandi eigendastefnuna er unnið að endurskoðun á eigendastefnu ríkisins vegna eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Helstu áherslur sem lagt er upp með við þessa breytingu eru í fyrsta lagi að ríkið verði áfram leiðandi fjárfestir í Landsbankanum til langframa, í öðru lagi verði tryggt að einn kerfislega mikilvægur banki eigi ávallt höfuðstöðvar á Íslandi og í þriðja lagi að stuðlað verði að stöðugleika í fjármálakerfinu og nauðsynlegir innviðir þess tryggðir, þar með talin greiðsluþjónustan, og að í fjórða lagi verði horft til þess að allir landsmenn eigi kost á almennri, vandaðri og traustri fjármálaþjónustu.

Íslandsbanki var yfirtekinn með stöðugleikaframlagi árið 2016 og var rætt um þá ráðstöfun með þeim hætti að hér litu menn svo á að um skammtímaeign ríkisins væri að ræða. Það er hins vegar ekki alveg augljóst hvernig á að vinda ofan af eignarhaldinu. Í þessari ríkisstjórn, þeirri sem síðast sat, ríkisstjórninni þar áður og í vinstri stjórninni 2009–2013 hefur verið horft til þess að draga úr eignarhaldi ríkisins. Í ríkisfjármálaáætlunum hefur verið gert ráð fyrir því að það fjárstreymi sem myndi leiða af sölunni myndi skila sér til að lækka vaxtakostnað ríkisins. Það hefur reyndar gengið þannig fram að vaxtakostnaðurinn er horfinn að því umfangi sem við höfðum ætlað að nota sölu fjármálafyrirtækja til að lækka hann en við höldum enn eignarhlutunum. Ég lít þannig á að það séu gríðarlega mikil tækifæri í því að breyta eignarhaldinu en vandinn liggur í því hvernig við getum með aðferðafræðinni best gætt að heildarhagsmunum ríkisins og þeim markmiðum sem við erum hér að ræða. Það er samtal sem við þurfum að eiga betur við Bankasýsluna, hvort við eigum að fara í einhvers konar skráningarferli, útboð eða hvort aðrar mögulegar leiðir séu heppilegri til að ná markmiðum okkar.