150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:06]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um bankana og ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þessa umræðu og fjármálaráðherra fyrir að vera viðstaddur. Ég tek undir með hv. þm. Birni Leví, við verðum að passa okkur. Við eigum að passa okkur, við höfum brennt okkur. Þjóðin krefst þess að við förum varlega í þessu máli.

Eiginlega setur að mér kuldahroll strax og bankar eru nefndir. Nýjasta útspil er hjá Landsbanka Íslands sem ætlar að fara að byggja svakalegt „snobb hill“ á dýrasta stað í bænum. Ég hef enga trú á öðru en að kostnaðurinn verði á bilinu 10–15 milljarðar. Á sama tíma er gerð krafa um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu. Bráðadeild Landspítalans stendur ekki undir sér. Spítalinn er í algjöru svelti. Hann á að skera niður um milljarða en það virðist eins og bankakerfið — bara af því að hann heitir Landsbankinn en er samt í eigu ríkisins er ekki hægt að hafa neitt aðhald með þessu. Þjóðin gerir kröfu og ég er alveg með á hreinu að við getum ekki farið í umræðu um sölu á bönkunum án þess að þjóðin komi að. Við ættum hreinlega að hafa þjóðfund bara um það, fá þjóðina að málinu. Ef við ætlum að fara í málið án hennar er ég hræddur um að nákvæmlega það sama gerist og gerðist síðast. Við vitum hvernig það fór, við vitum hvernig var selt á sínum tíma. Við vitum að það hét svo að einhver þýskur banki væri að kaupa en hann var aldrei í dæminu. Við vitum um brellurnar sem voru notaðar og við vitum afleiðingarnar. Við vitum líka nákvæmlega á hverjum það bitnaði. Það bitnaði á fólkinu í landinu, fólkinu sem missti íbúðirnar sínar, og stór hópur, þúsundir manna, hefur enn engin svör fengið hvað varðar eignir þess hóps og hverjir hirtu þær.