150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:18]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Margt mistókst við einkavæðingu ríkisbankanna sem farið er vandlega yfir í skýrslu sem rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 skilaði í apríl 2010. Því til viðbótar fengum við sérstaka skýrslu 2016 um rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf., sérstaklega um sýndarþátttöku þýska bankans Hauck & Aufhäuser. Það er mér til efs að við höfum lært nokkuð af þeim skýrslum. Persónur og leikendur sem fyrir hrun stóðu samhliða í viðskipta- og stjórnmálavafstri neita að stíga til hliðar og eru enn við leik og störf í þessu samþætta viðskipta- og stjórnmálastórveldi. Það er ekki grundvöllur fyrir því að selja bankana þegar hæstv. fjármálaráðherra sjálfur stendur svo nærri miklum viðskiptahagsmunum að hæfi hans er ekki hafið yfir allan vafa. Þjóðin hlýtur að eiga að njóta vafans fremur en ráðherrann.

Við erum enn með of stórt bankakerfi. Við höfum ekki enn aðskilið fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi. Það má leiða rök að því að við höfum sjálf staðið fyrir opinberu peningaþvætti í gegnum Seðlabankann og erum nú komin á gráan lista þar að lútandi. Þetta eru ekki ákjósanlegar aðstæður til að hið opinbera ráðist í að selja banka í annað sinn. Fyrsta skiptið mistókst hrapallega með hræðilegum afleiðingum fyrir samfélagið allt, allsherjarhrun. Við eigum langt í land áður en við getum hafist handa við sölu bankanna. Heimavinnan er öll eftir að mínu viti.

Mig fýsir að vita hvernig hæstv. fjármálaráðherra hyggst leysa þau mál sem ég fór yfir og koma í veg fyrir að bankasala ríkisins númer tvö fari eins illa og sú fyrri. Sú styrka umgjörð og regluverk sem hann minntist á áðan get ég ekki séð að sé til staðar.