150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

eigendastefnur Landsvirkjunar og Isavia.

178. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur unnið brautryðjendastarf við langtímastefnumótun, þ.e. stefnumótun sem lýtur sífelldri endurskoðun í hinum og þessum málaflokkum. Ég nefni loftslagsstefnu, nýsköpunarstefnu, heilbrigðisstefnu, orkustefnu, flugstefnu og fleira mætti nefna en það er líka til önnur tegund af stefnu. Við kölluðum hana gjarnan eigendastefnu — fyrir ríkisfyrirtæki. Það er stefnt að gerð eigendastefnu fyrir t.d. Isavia og Landsvirkjun í ríkisstjórnarsáttmálanum. Eigendastefna Isavia snertir margt í afkomu ríkisins og okkar þar með og einnig í stjórnmálum. Ég nefni t.d. flugmálin, bæði innanlands- og millilandaflug, sjálfbærni ferðaþjónustunnar, rekstur flugvalla og þolmörk ferðaþjónustu. Einhvers staðar liggja þau þolmörk, hvað snertir hversu miklu við getum tekið á móti af bæði flugi og ferðamönnum innan lands. Þetta snertir líka samgöngustefnu og samgönguáætlanir og að sjálfsögðu loftslagsmálin í allri sinni vídd. Eigendastefna Landsvirkjunar snertir margt á sama hátt. Dæmi: Umgengni um orkuauðlindir okkar, viðmið í orkunýtingu og náttúruvernd og þar með jafnvægi á milli þessara þátta. Hún snertir orkustefnu í ljósi loftslagsmála, það er jú verið að vinna hana núna, hún er ekki að fullu komin fram, og sjálfbærnihugtakið sem heyrist æ oftar í þessum sal. Svo eru það auðvitað skipulagsmál og sveitarstjórnarstigið í báðum þessum tilvikum.

Það er nokkuð liðið á kjörtímabilið og mikil vinna fram undan. Ég hef spurt hæstv. ráðherra að þessu einu sinni áður í almennum umræðum. Þá var þetta á því stigi að vera rétt í undirbúningi. En nú langar mig að endurtaka þær spurningar í öðru formi og spyrja hver staðan sé við mörkun eigendastefnu þessara tveggja ríkisfyrirtækja, Isavia og Landsvirkjunar. Með öðrum orðum: Hversu langt erum við komin og hvernig er unnið að þessari stefnu? Þá á ég helst við á hverju verið sé að taka. Og að lokum: Hvenær má búast við að Alþingi fái eigendastefnu fyrirtækjanna í hendur til umræðu? Þetta eru sem sagt þrjár spurningar.