150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

lyfjamál.

194. mál
[17:11]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svör og líka fyrir góð innlegg annarra hv. þingmanna. Mig langar að nefna nokkur atriði af því að hæstv. ráðherra talaði um að hlutfall lyfjakostnaðar af heilbrigðisútgjöldum hér séu nálægt 11%, þegar ég fæ 8,3% út. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Tekur hann byggingarkostnað við Landspítalann út og er þetta þá samanburðarhæft við lönd OECD, ég geri ráð fyrir að einhvers staðar séu byggingarframkvæmdir inni í heilbrigðisútgjöldum? Það er kannski hægt að svara þessu síðar. Þetta skiptir náttúrlega máli í samanburðinum.

Mig langar líka að koma með aðra spurningu sem tengist eiginlega svari hæstv. ráðherra um þau lyf sem hefðu þýtt 25 millj. kr. sparnað hjá Landspítalanum. Er það flutningskostnaður til Íslands eða er hæstv. ráðherra þá að miða við verðið inn á gólf sjúkrahússins, eða hvaða sjúkrahúss sem er? Ef hæstv. ráðherra hefði þær upplýsingar á reiðum höndum væri gott að fá þær.

Ég veit að ráðherra ætlar að koma nánar að lyfjaverði og þætti mér vænt um að heyra aðeins nánar um það. Við erum í þessum lyfjabransa að tala, eins og svo víða, um þessa 80–20% reglu sem lifir góðu lífi, að 20% lyfjanna standi undir 80% af lyfjakostnaði ríkisins, svona sirka, og það er sá kúfur sem verið er að reyna að ráðast í. Ég spyr: Hefur ráðherra einhverjar áhyggjur af því eða hefur hann gert einhverjar ráðstafanir til að tryggja afhendingaröryggi og þá að verð rjúki hugsanlega ekki upp úr öllu valdi á þessum 80% sem vega þó ekki nema 20% í lyfjakostnaðinum? Það eru náttúrlega lyf sem eru jafn mikilvæg þeim einstaklingum sem þau nota og hin veltumeiri lyf eru öðrum. Er verið að tryggja að þessi lyf láti ekki undan?