150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

lyfjamál.

194. mál
[17:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er synd að hafa ekki meiri tíma til að bregðast við. Mig langar til að við höldum því til haga að litið var á þetta útboð sem reynsluverkefni til að afla þekkingar á hagnýtum þáttum slíkra útboða, hvort þau skili árangri yfir höfuð, hvernig við metum árangurinn, hvaða lyf henta til sameiginlegra útboða og hvernig verður best að þessu staðið til framtíðar. Möguleikarnir á sameiginlegum útboðum hafa verið ræddir árum saman á norrænum vettvangi og þar erum við að stíga fyrstu skrefin vegna þess að útgjöld til lyfjamála eru að hækka jafnt og þétt hjá öllum þjóðunum. Ég hef ekki svör við því sem hv. þingmaður spurði um, hvort framkvæmdakostnaðurinn væri inni í þessari prósentutölu. En ég get komið þeim upplýsingum til hv. þingmanns eftir öðrum leiðum eða sem svar við skriflegri fyrirspurn ef hv. þingmaður óskar þess.

Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir spurði sérstaklega um rafræna fylgiseðla. Þar er ekki bara um að ræða að við ryðjum ákveðnum hindrunum úr vegi heldur er það líka umhverfismál vegna þess að eins og staðan er núna, ef leiðbeiningar með lyfjum breytast, þá þarf að farga þeim lyfjum sem eru með úreltum upplýsingum, sem er náttúrlega afar fáránlegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Fyrir utan hitt að það er mikilvægt fyrir lítil tungumálasvæði að geta boðið upp á rafræna fylgiseðla, að ég tali nú ekki um fjölmenningarsamfélag, ef við ætlum að standa undir nafni sem slíkt, að geta verið með fjölbreytt tungumál fyrir útskýringar á lyfjum og aukaverkunum o.s.frv.

Hv. þingmaður spyr líka sérstaklega um dýr lyf og afhendingaröryggi þeirra lyfja sem skipa kannski stærstan hluta kerfisins. Ég hef væntingar til þess að með nýju lyfjafrumvarpi séum við að skoða eða koma til móts við þetta að hluta. En lyfjaskortur er því miður að verða sífellt algengari. Á Norðurlöndunum er hann alvarlegastur og algengastur í Finnlandi. Ég hyggst setja á fót starfshóp til að skoða sérstaklega hvernig verði hægt að (Forseti hringir.) bregðast við lyfjaskorti því að óásættanlegt er að þessi hluti heilbrigðisþjónustunnar sé eins óöruggur og raun ber vitni.