150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

menntun lögreglumanna.

233. mál
[17:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Árið 2016 samþykktum við í þinginu breytingar á lögreglulögum með það að markmiði að breyta lögreglumenntun í landinu og færa hana upp á háskólastig. Nú er komin nokkur reynsla á þetta fyrirkomulag. Námið er í boði við Háskólann á Akureyri en í lögunum er gert ráð fyrir að starfrækt sé mennta- og starfsþróunarsetur hjá ríkislögreglustjóra sem gegni því hlutverki að annast starfsnám nema í lögreglufræðum, hafa umsjón með símenntun lögreglumanna og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um menntun lögreglumanna.

Nú eru nokkur ár síðan þessi breyting tók gildi og mér leikur forvitni á að vita hvernig hún hefur gefist, hvernig það hefur komið út fyrir lögregluna í landinu að færa námið upp á háskólastig og hvort þau markmið sem að var stefnt með þessari breytingu hafi náðst. Þau voru m.a. að bæta menntun lögreglumanna og jafnframt töldum við að það gæti verið betri stýring á því hvernig við bregðumst við mönnunarvanda hjá lögreglunni. Mér leikur forvitni á að vita hvort fram hafi farið einhver sérstök úttekt, skoðun eða rannsókn á því hvernig til hafi tekist, hvort það liggi fyrir eða hvort stefnt sé að því að gera það, þannig að við áttum okkur á því hvort við höfum gengið veginn til góðs eða ekki og þá hvort eitthvað þurfi að gera til að bæta í og laga þetta fyrirkomulag.

Einnig langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé fyrirhugað að efla starfsnámið fyrir verðandi lögreglumenn. Við höfum auðvitað fréttir af því að ekki komist allir í starfsnám sem taka bóklega hlutann. Það liggur fyrir. Þó er alltaf hægt að gera betur og spurning hvort ástæða sé til að efla starfsnámið.

Ég sat í allsherjar- og menntamálanefnd þegar lögunum var breytt og áður en þeim var breytt höfðum við í nefndinni farið fram á að ráðuneytið myndi stofna starfshóp til að fara yfir menntun lögreglumanna og koma með tillögur að breytingum. Afraksturinn var þessi breyting þannig að okkur sem sátum í nefndinni á þeim tíma leikur forvitni á að vita hvort og hvernig þetta hefur allt saman gengið. Þá væri líka ágætt ef ráðherrann hefði tök á að segja okkur aðeins frá því hvernig samstarfið gengur við menntamálayfirvöld. Þau fara með yfirstjórn háskólans og auðvitað þarf ákveðið samráð að eiga sér stað til að þessi menntun geti staðið undir þeim væntingum sem við höfum öll til hennar.