150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

menntun lögreglumanna.

233. mál
[17:19]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir fyrirspurnina. Það er mjög mikilvægt að við veltum alltaf við steinunum þegar við erum að búa til nýtt fyrirkomulag eins og við gerðum með lögreglunámið. Með þessu var menntunin færð til þess fyrirkomulags sem við sjáum á Norðurlöndunum og hafði ákveðin markmið, þau að tryggja að lögreglan gæti fyrst og fremst tekist á við öll þau mikilvægu verkefni sem hennar bíða, að tryggja réttaröryggi borgaranna og grundvallarhagsmuni ríkisins. Það er mikilvægt að lögreglumenn hafi góða þekkingu á þeim kröfum hverju sinni. Með umræddri breytingu var lögð áhersla á tvö markmið. Eitt var að betri dreifing nemenda væri um allt land og það markmið hefur náðst. Við sjáum verulegan mun þar á. Einnig hefur það áunnist að bæta verulega úr kynjahlutfalli nemenda í lögreglunámi og er það afar vel.

Fyrsti árgangur hóf nám haustið 2016 undir þessu kerfi þannig að aðeins tveir árgangar hafa lokið námi eftir breytingarnar. Þetta er fjöldinn allur, fleiri lögreglumenn en hefðu ella útskrifast úr þessu kerfi, en það er ljóst að enn er kannski óraunhæft að meta hvort öllum markmiðunum hafi verið náð. Þó er ljóst að vel hefur tekist til miðað við hvað breytingarnar voru stórar og umfangsmiklar. Nú er að fara af stað úttekt á þessu námi, hún er á byrjunarstigi en á að ljúka næsta vor, það á að vera skýrsla lögreglufræðideildar Háskólans á Akureyri og út frá því vonumst við til að geta unnið í framhaldinu. Grunnurinn er auðvitað sá að við höfum náð ýmsum markmiðum og erum með fleiri menntaða lögreglumenn til að koma til starfa en ella hefði verið.

Ráðuneytinu hefur borist ábending frá embætti ríkislögreglustjóra, sem fer fyrir mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar, um starfsnámið og mikilvægi þess að efla það í þessu námi. Mikil ástæða þykir til að skoða þær leiðir að starfsþjálfun verði enn frekar partur af námi verðandi lögreglumanna. Meðal þeirra leiða þarf aðallega að horfa til þess að auka samþættingu akademísks náms og verklegrar þjálfunar enn frekar. Þetta er farið inn í háskólakerfi sem er kannski svolítið nýtt fyrir háskólann líka, að vera eins sveigjanlegur og þörf er á þegar lögreglunám er annars vegar. Þá þarf að hafa augun opin fyrir nýjum tækifærum og öðruvísi reglum. Umfang verklegrar þjálfunar þarf að auka með betri samþættingu þess akademíska náms sem fer fram í skólanum.

Það er alveg ljóst að samstarfið hefur verið gott þó að við getum alltaf gert betur. Við eigum að skoða hvað hefur reynst vel og hvað við getum gert betur eftir þessa tvo árganga. Í samstarfi við menntamálayfirvöldin förum við í þessa úttekt sem áætlað er að verði skilað vorið 2020. Það samstarf hefur verið gott og ég býst við að það verði gott í framhaldinu til að takast á við þær áskoranir að gera þetta nám enn öflugra og betra. Við sjáum strax mikil tækifæri í því að fleiri menntaðir lögreglumenn eru með þetta nám á bakinu en hefði verið undir þeim kringumstæðum í gamla kerfinu.