151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Litlausar, grænar hugmyndir sofa æðislega. Eitthvað á þessa leið minnir mig að hafi hljómað setning sem var, þegar ég var að læra um eðli tungumála í mínu ungdæmi, höfð til marks um málfræðilega tæka setningu sem væri hins vegar merkingarlega ótæk, væri della. Mér varð hugsað til þessarar setningar í morgun þegar ég heyrði ágætt viðtal á Rás 1 í Ríkisútvarpinu við Þórð Magnússon, stjórnarformann Eyris og margreyndan fjárfesti, þar sem hann lagði áherslu á að nú væri lag að fjárfesta í grænni atvinnustarfsemi, grænum lausnum, grænni nýsköpun. Græni liturinn var allsráðandi í þessu viðtali og fór vel á því. Þarna voru grænar hugmyndir.

Grasið er grænt en kolin eru svört. Kálið er grænt en verksmiðjureykurinn er grár. Jörðin, þessi blái hnöttur, gefur okkur gjafir í öllum hugsanlegum litum en olían, hún er svört. Um allan heim á sér stað vitundarvakning, meira að segja hjá helstu fyrirmynd íslenskra íhaldsmanna, enskum íhaldsmönnum. Nú hafa þeir meira að segja kynnt framsækna áætlun um að útrýma bensín- og dísilbílum. Tími rányrkju og svartrar atvinnustarfsemi er liðinn en samt er það enn svo að litlausar grænar hugmyndir sofa æðislega. Við þurfum að vekja þær og fylla af lit.

Við í Samfylkingunni höfum lagt fram mótaðar og raunhæfar hugmyndir um þetta og það er hluti af ábyrgu leiðinni okkar. Við leggjum fram þingsályktunartillögu um græna atvinnubyltingu þar sem m.a. er gert ráð fyrir grænum fjárfestingarsjóði með 5 milljarða í hlutafé. Litríkar grænar hugmyndir vaka æðislega.