151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær lagði hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra tillögu fyrir Alþingi um menntastefnu fyrir árin 2020–2030. Það er frábært skref. Stefnan er metnaðarfull og leiðarljós hennar eru þrautseigja, hugrekki, þekking og hamingja. Ég tel afskaplega mikilvægt að stefnan fái ítarlega og markvissa umfjöllun á Alþingi, en einnig að hún verði afgreidd hratt og vel þannig að hún fari að skila árangri sem fyrst. Við þurfum skýra menntastefnu á hverjum tíma. Menntakerfið allt, frá leikskóla og upp í háskóla og um alla vegi og slóða símenntunarinnar, þarf að hafa sameiginleg markmið og allir þurfa að vita hvert er stefnt. Það næst svo miklu betri árangur þegar allir róa í sömu átt.

Ég fagna því sérstaklega að texti menntastefnunnar er stuttur og hnitmiðaðar. Knappur texti er merki um vel ígrundaða og skýra stefnu. Það er líka góð tilbreyting fyrir skólafólk að fá hnitmiðaðan texta til að vinna eftir á máli sem allir skilja. Vinna samkvæmt menntastefnu snýst nefnilega um öflugt samstarf menntakerfisins og samfélagsins alls og því þarf stefnan að vera öllum aðgengileg og skiljanleg. Þá er sérstaklega mikilvægt að innleiðing er hluti af stefnunni. Gert er ráð fyrir tíma og vinnu fyrir innleiðingu stefnunnar. Áætlað er að innleiðingu menntastefnunnar verði skipt í þrjú tímabil og í upphafi hvers tímabils verði lögð fram innleiðingaráætlun ásamt aðgerðum og árangursmælikvörðum.

Ég vil líka nota þetta tækifæri og vekja athygli á tengslum menntastefnunnar við vinnu að umbótum í málefnum barna sem fram fer á vegum félags- og barnamálaráðherra. Áhersla menntastefnu um snemmbæran stuðning sem lið í jöfnum tækifærum fyrir alla og áhersla á ábyrgð og samhæfingu þjónustukerfa til að tryggja gæði er einmitt í fullu samræmi og beinum tengslum við vinnu að umbótum í málefnum barna.