151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Það ánægjulega er að gerast að við erum að fá fréttir af bóluefni, tvær mikilvægar fréttir af stórum fyrirtækjum, sem okkar færustu sérfræðingar fagna mjög, sem verða mjög líklega komin í virkni á næsta ári. Þannig að við sjáum að þessi veirutími er tímabundinn, eins og m.a. við í Viðreisn höfum verið að halda fram. Við höfum þess vegna lagt mjög mikla áherslu á að á þessum tíma tökum við stór skref og það strax og reynum að slá raunverulega skjaldborg utan um þau fyrirtæki sem þurfa að vera á lífi, sem þurfa að vera þátttakendur og eru nauðsynlegir þátttakendur fyrir okkur í þeirri viðspyrnu sem við munum þurfa og förum í þegar vorið kemur.

Við höfum lagt áherslu á fyrirsjáanleika og heyrum í ríkara mæli að einyrkjar, lítil fyrirtæki, meðalstór fyrirtæki, segja það og benda á það að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem eru margar hverjar mjög mikilvægar, eins og hlutabótaleiðin, hjálpa ekki sem skyldi. Og það eru alltaf sömu aðilarnir sem falla á milli skips og bryggju.

Blásið hefur verið til hvers blaðamannafundarins á fætur öðrum þar sem sagt hefur verið að verið sé að setja milljarða hér og milljarða þar. En síðan kemur í ljós að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru mun minni en boðað var. Langstærsti þátturinn er í hlutabótaleiðina, sem er góð leið, og síðan atvinnuleysisbætur. Það sem ég óttast er að allt það sem boðað hefur verið skili sér ekki í þau verkefni og þau fyrirtæki eða til þeirra aðila sem við þurfum á að halda að hafa lifandi, hafa í fullri virkni þegar við förum inn í uppsveifluna. Þess vegna legg ég ríka áherslu á það enn og aftur að ríkisstjórnin taki stór skref strax, eyði þessari óvissu og veiti fólki, ekki síst einyrkjum og litlum fyrirtækjum, miklu meiri fyrirsjáanleika en gert hefur verið.