151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

tafir á aðgerðum og biðlistar.

117. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Hanna Katrín Friðriksson) (V):

Herra forseti. Þetta er ekki fyrsta umræðan sem við þingmenn eigum hér í salnum við hæstv. heilbrigðisráðherra um stöðu biðlista í heilbrigðiskerfinu og ég geri ekki ráð fyrir að hún verði sú síðasta. Það knappa form sem hér er í boði býður ekki upp á að farið sé ofan í málin af einhverri dýpt. Sú vinna á sér stað á öðrum vettvangi, hjá heilbrigðisráðuneyti, undirstofnunum og velferðarnefnd Alþingis, ef svo ber undir, og einmitt þess vegna eru spurningar mínar einfaldar. Það liggur fyrir að sérfræðilæknar hafa verið án samninga við heilbrigðisyfirvöld í tvö og hálft ár og ráðherra hefur ítrekað stigið fram og lýst því yfir að verið sé að semja og verið sé að vinna í samningum, en lítið þokast áfram. Á sama tíma heyrist frá læknunum að þeir hafi ítrekað kallað eftir því að fá að vita hvaða þjónustu ríkið vilji kaupa og að fátt hafi verið um svör. Það finnst mér miður og mig langar að nota tækifærið hér og hvetja hæstv. ráðherra til dáða.

Þegar farið er á heimasíðu landlæknis má sjá lista yfir fjölda fólks sem bíður eftir völdum aðgerðum á borð við augnsteinaaðgerðir, gerviliðaaðgerðir á mjöðm og hné, skurðaðgerðir á maga vegna offitu, gallsteinaaðgerðir, valdar aðgerðir á grindarholslíffærum kvenna eða vegna brottnáms legs, svo ég telji nú upp þær aðgerðir þar sem biðlistarnir eru lengstir samkvæmt listanum. Það vill oft brenna við að við tölum um þessar valkvæðu mjaðma- og hnjáliðaaðgerðir eins og þær séu upphaf og endir alls, en þetta eru ansi margar tegundir aðgerða. Þessar aðgerðir eru framkvæmdar á Landspítala og eftir atvikum öðrum heilbrigðisstofnunum landsins og margar hverjar líka hjá einkaaðilum. Þar er hins vegar staðan sú, eins og við vitum, að oft þurfa þeir sem þangað leita að greiða fullt verð vegna skorts á samningi við heilbrigðisyfirvöld. Sú staða er afleiðing af pólitískri stefnu ríkisstjórnarinnar og við höfum oft rætt hana.

Í ljósi þess álags sem er á heilbrigðiskerfinu núna langar mig að spyrja hvort ráðherra telji koma til greina að Sjúkratryggingar Íslands semji við sjálfstætt starfandi lækna um að vinna niður biðlista fyrir mikilvægar aðgerðir á þessum lista í ljósi þess álags sem nú er þó svo að endanlegir samningar séu ekki í höfn. Ég ítreka að mér þykir það miður, en þetta er fókusinn akkúrat núna. Alma Möller landlæknir hefur sagt að kórónuveirufaraldurinn hafi m.a. dregið fram veikleika kerfisins. Ég vil árétta það, og það er ekki bara álit mitt, það er álit landlæknis og allra þeirra sem til þekkja, að faraldurinn hefur sýnt styrkleika kerfisins, en hann hefur dregið fram þann veikleika kerfisins sem felst í litlu kerfi og mönnunarvandamálum sem leiða til þess að brestir koma í kerfið og eðli málsins vegna er verið að ýta í þá átt að fjölgað hefur á biðlistum.

Þannig að ég spyr: Er í skoðun aðkoma sjálfstætt starfandi einingar utan ríkisrekna kerfisins til að koma til móts við þarfir sjúklinga og bæta afkastagetu (Forseti hringir.) og draga úr biðlistavanda akkúrat núna? Og til vara langar mig að spyrja: (Forseti hringir.) Ef svarið er jákvætt, þar sem nú stendur yfir vinna við fjárlög næsta árs, sendir ráðherra þau skilaboð (Forseti hringir.) inn í þá vinnu að bæta í til að takast á við þennan hluta þeirra áskorana sem kerfið stendur frammi fyrir?