151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

tafir á aðgerðum og biðlistar.

117. mál
[17:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að beina til mín þessari munnlegu fyrirspurn. Þingmaðurinn spyr: Telur ráðherra koma til greina að Sjúkratryggingar Íslands semji við sjálfstætt starfandi lækna til að vinna niður biðlista fyrir mikilvægar aðgerðir á borð við liðskiptaaðgerðir? Þá er rétt að taka sérstaklega fram hér að valaðgerðir eru margvíslegar, bæði að umfangi og alvarleika. Þær eru framkvæmdar á ýmsum aðgerðastöðum, bæði á opinberum heilbrigðisstofnunum og hjá sjálfstætt starfandi læknum á einkareknum skurðstofum. Valkvæðum aðgerðum er forgangsraðað eftir bráðleika. Landspítali gegnir lykilhlutverki í baráttu okkar við Covid-19 og þar er mikill kraftur settur í að tryggja það viðbragð sem nauðsynlegt er til að veita öllum sem þangað leita og veikst hafa af Covid örugga, bráða og góða heilbrigðisþjónustu. Þar er því valkvæðum aðgerðum forgangsraðað eftir eðli veikinda þeirra sjúklinga sem talið er að megi ekki bíða og að auki er metið frá degi til dags hvort mögulegt sé að framkvæma aðrar valkvæðar skurðaðgerðir sem skilgreindar hafa verið sem biðlistaaðgerðir og er vísað til hér.

Sú staða sem uppi hefur verið hefur óneitanlega haft áhrif á fjölda þeirra aðgerða sem unnt er að framkvæma, en samkvæmt lögum nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu, er heilbrigðisstofnunum sem ríkið rekur heimilt, með leyfi ráðherra, að fela öðrum heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstarfsmönnum að sinna ákveðnum þáttum þeirrar heilbrigðisþjónustu sem þeim ber að veita. Engin ósk hefur komið til ráðherra frá opinberum heilbrigðisstofnunum sem framkvæma liðskiptaaðgerðir eða aðrar mikilvægar aðgerðir að fá slíka heimild til að fela öðrum heilbrigðisstofnunum að sinna þessari þjónustu og hefur ekki verið tekin sérstök ákvörðun um að fela Sjúkratryggingum að semja beint við sjálfstætt starfandi lækna um gerð liðskiptaaðgerða. En ég legg áherslu á að mögulega þarf að skoða hvaða bjargir eru til innan lands til að tryggja sem besta þjónustu.

Hv. þingmaður spyr líka: Til hvaða ráðstafana hefur ráðherra gripið til að bregðast við töfum á aðgerðum vegna ferðatakmarkana og vegna þess álags á heilbrigðiskerfið sem fylgt hefur heimsfaraldri? Mitt svar er á þá lund að ýmsir þættir geta haft áhrif á afkastagetu sjúkrahúsa og þar með bið eftir skurðaðgerðum. Aðgengi að legurýmum er ein af forsendum aðgerða. Mikilvægt er því að nýting þeirra sé rétt. Til að stuðla að því þarf fjölþætta þjónustu utan sjúkrahúsa sem mætir þeim þörfum fólks sem ekki þarf endilega sjúkrahússinnlögn til. Á það hef ég lagt áherslu sem heilbrigðisráðherra til að tryggja sem best aðgengi þeirra að þjónustu sem þurfa að komast í aðgerð eða að leggjast inn á sjúkrahús af öðrum ástæðum.

Sú þjónusta sem ég hef því m.a. lagt áherslu á að efla um land allt er þjónusta heilsugæslunnar, aukin heimahjúkrun, fjölgun hjúkrunarrýma, aukin endurhæfing og aukin geðheilbrigðisþjónusta. Lögð var fram ný heilbrigðisstefna til að vísa veginn til ársins 2030, sett fram ný framkvæmdaáætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma og fjöldi nýrra hjúkrunarrýma hefur verið tekinn í notkun, síðast núna í byrjun mars þegar 99 ný hjúkrunarrými voru tekin í notkun á Sléttuvegi. Heimahjúkrun hefur verið stórefld og sérstakt fjármagn verið veitt þar til að efla nýtingu velferðartækni í þjónustunni. Öll þessi þjónusta stuðlar að betra aðgengi að legurýmum sjúkrahúsa sem aftur hefur áhrif á svigrúm til að framkvæma aðgerðir. Ég dreg þetta fram hér, virðulegur forseti, vegna þess að þetta er keðja.

Síðast en ekki síst vil ég nefna þá áherslu sem ég hef lagt á mikilvægi mannafla í heilbrigðisþjónustunni því að þjónustan verður ekki veitt nema rétt þekking og réttur fjöldi heilbrigðisstarfsmanna sé til staðar. Það er því að mörgu að hyggja til að tryggja sem best að þjónustan sé veitt á réttum stað og á réttum tíma. Með samstilltu átaki í upphafi þriðju bylgju Covid, eða þeirri bylgju sem samfélagið og heilbrigðisþjónustan er núna að glíma við, hefur stjórnendum fjölmargra stofnana tekist með samstilltu átaki að létta verulega á útskriftarvanda Landspítala með því að fjölga útskriftum sjúklinga, hvort heldur er á heilbrigðisstofnanir í nágrannasveitarfélögum, hjúkrunarheimili eða með því að auka verulega þá heimahjúkrun sem í boði er fyrir þá sem geta farið aftur á eigið heimili eftir að sjúkrahúsdvöl lýkur. Þetta þýðir að losað er um innan sjúkrahússins sem tryggir betri þjónustu þar.

Ég bind vonir við að nú þegar álag á heilbrigðiskerfið vegna Covid-19 fer minnkandi, eins og við sjáum núna þegar Landspítalinn er kominn af neyðarstigi, verði hægt að fjölga mjög þeim valkvæðu aðgerðum sem þurft hefur að fresta á liðnum vikum og vinna myndarlega á þeim biðlistum sem fyrir liggja.