151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

breytingar á lögum um fjöleignarhús.

62. mál
[17:34]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að taka málefni brunavarna upp hér í sölum Alþingis og segja að ég deili áhyggjum hv. þingmanns og líka hryggð yfir þeim fjölda dauðsfalla sem verið hafa af völdum bruna síðastliðið ár, bæði á Bræðraborgarstíg og vegna fleiri bruna sem átt hafa sér stað, til að mynda nú nýlega í uppsveitum Borgarfjarðar. Ég deili líka skoðun hv. þingmanns á mikilvægi þess að efla brunavarnir hér á landi.

Þegar málaflokkurinn fluttist yfir til félagsmálaráðuneytisins og við stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar var eitt af því sem horft var sérstaklega til það hvernig hægt væri að efla brunavarnir. Ein af lykiltillögunum hvað það snertir var að hefja þá sókn á því að setja upp sérstakt brunavarnasvið innan Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar, sem þýðir að eitt fjögurra sviða stofnunarinnar, og þar af leiðandi um 25% af starfsemi hennar, ætti að leggja áherslu á brunavarnir á næstu árum. Það ætti m.a. að snúa að slökkviliðum, útbúnaði slökkviliða, forvörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum og eins mögulegum breytingum á lagaumhverfi. Hluti af þessum aðgerðum er þegar farinn í gang. Til að mynda er að hefjast sérstakt eldvarnaátak núna á næstunni sem miðar að því að aðstoða fólk og fjölskyldur við brunavarnir og veita þjónustu sem ekki hefur verið veitt áður. Það verður kynnt á næstunni.

Líkt og hv. þingmaður nefndi var bruninn á Bræðraborgarstíg sláandi. Í kjölfarið kom upp umræða um brunavarnir, ábyrgð leigusala og aðstæður erlendra verkamanna, allt í sama málinu. Í framhaldi af því hefst það, sem er eðlilegur farvegur, að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með rannsókn á brunanum. Hún vinnur að rannsókn sem er á lokametrunum, að því er ég best veit. Samhliða hefur verið óskað eftir því að stofnunin, í samvinnu við ráðuneytið, leggi jafnframt mat á til hvaða aðgerða annarra við gætum gripið, lagaaðgerða, breytinga á lögum og öðru, til að efla brunavarnir og koma í veg fyrir atburði eins og urðu þarna. Getum við gert lagabreytingar? Getum við ráðist í breytingar sem snerta með einhverjum hætti öll þessi svið sem hv. þingmaður nefnir? Þar eru m.a. til skoðunar fjöleignarhúsalög, húsaleigulög og fleiri lög sem tengjast með einum eða öðrum hætti brunavörnum og húsnæði fólks og eftir atvikum vinnumarkaðslöggjöf. Þó hafa þetta nú meira verið húsaleigulög, fjöleignarhúsalög, aðstæður og byggingarreglugerðir og fleira.

Ég fékk fregnir af því bara í síðustu viku að rannsóknin væri á lokametrunum og að tillögur yrðu kynntar fyrir ráðherra á allra næstu dögum þannig að hægt væri að meta til hvaða aðgerða væri hægt að grípa til hratt. Ég get ekki tekið afstöðu nákvæmlega til þeirrar tillögu sem hv. þingmaður rakti hér og þess dæmis sem að baki býr, ég sá reyndar ekki fréttina sem hv. þingmaður vísar til, en ég mun koma þessu strax til þeirra sem vinna að þessari úttekt. Við eigum ekki bara að geta rannsakað brunann og orsök hans heldur líka velt því fyrir okkur hratt hvaða breytingar þurfi að ráðast í og við getum ráðist í til að bæta úr og draga úr líkum á því að svona geti gerst aftur í íslensku samfélagi.

Ég hef því kannski ekki beint svar fyrir hv. þingmann um hvort og hvernig og hvaða lagabreytingar ég sjái fyrir mér að ráðist verði í, einkum og sér í lagi vegna þess að við ákváðum samhliða þessu að setja ákveðna vinnu af stað, sem ég vonast til að ljúki núna vel fyrir jól þannig að við getum sett meiri kraft í þetta strax á nýju ári.