151. löggjafarþing — 22. fundur,  18. nóv. 2020.

lán Íbúðalánasjóðs sem bera uppgreiðslugjald.

196. mál
[18:14]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er dapurlegt mál á marga vegu sem hv. þingmaður tekur hér upp. Þegar hv. þingmaður lýsir lánunum sem ósanngjörnum þá verð ég að segja að þau eru það í dag, en þau voru það ekki á þeim tíma sem þau voru tekin. Það sem ég myndi segja að lýsi kannski best þessum lánaflokki, þessum tegundum lána, er að þetta var algjörlega misheppnuð húsnæðislánaaðgerð á sínum tíma. Við verðum að muna hvernig þetta var. Þetta var þannig að menn trúðu því að með því að Íbúðalánasjóður gæfi sjálfur út óuppgreiðanleg lán gæti hann notið hagstæðari vaxtakjara en ef hann gæfi út uppgreiðanleg lán. Þessi hagstæðari kjör voru kjörin sem lántakendur hjá sjóðnum áttu að fá að njóta, eins og hér er verið að rifja upp. Þessi lán voru veitt á þeim hagstæðustu kjörum sem stóðu til boða á markaðnum á þessum tíma. Við skulum sömuleiðis muna að við erum að tala um Íbúðalánasjóð sem nýtur í reynd eins konar bakábyrgðar ríkissjóðs og tekur bara fyrsta veðrétt gildan í fasteignum, bara fyrsta veðrétt.

Í millitíðinni hefur það hins vegar gerst að komnir eru aðrir miklu hagstæðari lánakostir en þessi lán. Þetta hefðu menn auðvitað átt að sjá fyrir þegar þeir voru að smíða þessi lánaúrræði, að fólk myndi mögulega í framtíðinni vilja komast út úr þessu. Það gerðu menn ekki, þeir sáu það ekki fyrir. Þess vegna er þessi vandi kominn upp.

Áður en tími minn er úti ætla ég að fara beint inn í þessar sértæku spurningar. Spurt er hversu mörg lánin séu hjá ÍL-sjóði, sem við höfum núna stofnað, sem tók við þessum neytendalánum Íbúðalánasjóðs. Virk lán með uppgreiðsluákvæði voru 4.489 í júní. Þessi lán voru veitt á árunum 2005–2013. Samanlagt uppgreiðsluvirði án uppgreiðslugjalda eru rúmir 58,3 milljarðar. Miðað er við lok júní á þessu ári. 58,3 milljarðar er samanlagt uppgreiðsluvirði í lok júní.

Spurt er hvort ég muni beita mér fyrir skilmálabreytingu þannig að það verði hagstæðara fyrir skuldara að greiða lánin upp og njóta betri kjara annars staðar. Ég verð að segja að ógjaldfallin uppgreiðslugjöld eru rúmir 3,8 milljarðar. En heildarfjárhæð þess sem þegar hefur verið innheimt, t.d. í því dæmi sem hv. þingmaður rakti hér í ræðustól, úr einstökum viðskiptum, þ.e. heildarfjárhæð þegar innheimtra uppgreiðslugjalda, er 4,5 milljarðar.

Ef við færum út í það að fella niður uppgreiðsluákvæðið rísa ýmis álitamál. Hvaða fordæmisgildi myndi það hafa, t.d. vegna þeirra sem nú þegar hafa losað sig undan þessu með því að greiða upp gjaldið? Ef við gæfum okkur að það myndi falla líka á ríkissjóð værum við að tala um 8 milljarða aðgerð.

Ég hef ekki verið með þetta til sérstakrar skoðunar. Ég vek bara aftur athygli á því að þeir lántakendur sem völdu þennan lánakost völdu á þeim tíma hagstæðustu lánskjörin sem í boði voru. Ef maður horfir til vaxtakjaranna sérstaklega þá má segja að þetta uppgreiðsluákvæði hafi verið miklu meira íþyngjandi en menn sáu fyrir á þeim tíma.

Ég verð að lokum að vekja athygli á því sem ég rakti í upphafi að Íbúðalánasjóður hefur engin úrræði til að snúa sér að þeim sem hann skuldar, (Forseti hringir.) sem eru fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir, og þeir eru ekki tilbúnir til að leyfa Íbúðalánasjóði að snúa sér við og greiða upp lánin án neins konar refsingar fyrir það.