154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

afstaða stjórnvalda í utanríkismálum.

[15:21]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki um að taka djúpt í árinni eða einhver pólitísk sóknarfæri. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að hún hefði viljað aðra ákvörðun. Við sáum t.d. forsætisráðherra Noregs í framlínunni þarlendis þegar kom að ályktun Sameinuðu þjóðanna. Hann bar þá ákvörðun uppi í fjölmiðlum, enda höfuð ríkisstjórnarinnar. Það skiptir máli að hæstv. forsætisráðherra geti staðið á bak við stórar ákvarðanir í utanríkismálum. Átökin fyrir botni Miðjarðarhafs hafa bitnað nær einvörðungu á óbreyttum borgurum og það fæst ekkert öryggi fyrir fólkið á svæðinu með áframhaldandi stríðsrekstri. Alþjóðasamfélagið þarf að veita fólkinu sem þarna býr von um að það sé hægt að koma á friðsamlegri lausn, alveg sama hversu ólíklegt fólki finnst það í stöðunni í dag. Við erum í varnarbandalagi. Það var minn skilningur, forseti, á utanríkismálastefnu Íslands að innan þess og utan töluðum við fyrir friðsamlegum lausnum, sér í lagi í aðstæðum sem þessum. Ég segi alveg eins og er að mér þykir miður að þessi ríkisstjórn (Forseti hringir.) geti ekki talað einni röddu í þessum viðkvæma málaflokki, með einum tóni sem hæfir aðstæðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)