154. löggjafarþing — 22. fundur,  6. nóv. 2023.

fordæming stríðsglæpa á Gaza og mannúðarhlé.

[15:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra sagði í viðtali við Ríkisútvarpið fyrir helgi, með leyfi forseta:

„Við getum ekki staðið með Ísraelsmönnum í þeirra rétti til að halda uppi sjálfsvörnum þegar þeir ganga of langt og það sem íslensk stjórnvöld hafa sagt beint við Ísraelsmenn og á alþjóðavettvangi er það að allar vísbendingar um það að menn gangi of langt séu brot á lögum, allar slíkar vísbendingar eigi að rannsaka og þær verði að hafa afleiðingar.“

Ísraelsher hefur staðfest að hann hafi gert loftárásir á sjúkrabíl á Gaza þar sem fjöldi manns lét lífið og tugir slösuðust. Ísraelsher staðfesti einnig fyrr í vikunni að þeir hafi gert loftárásir á flóttamannabúðir í Gaza tvo daga í röð en talið er að um 200 manns hafi látið lífið við árásirnar. Stöðugar loftárásir Ísraelshers gera það að verkum að ekki er hægt að leita að fólki sem er fast í rústunum. Á þeim fjórum vikum sem hafa liðið frá árásum Hamas-samtakanna á óbreytta borgara Ísraels, þar sem 1.400 voru myrt og 200 tekin í gíslingu, er talið að um 10.000 Palestínumenn hafa látið lífið og af þeim að minnsta kosti 3.500 börn.

Mannréttindasérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa lýst yfir þungum áhyggjum af því að þjóðarmorð Palestínumanna sé yfirvofandi og lýsa því afdráttarlaust yfir að árásin á Jabalia-flóttamannabúðirnar hafi verið stríðsglæpur. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti að kalla eftir mannúðarhléi svo að hægt verði að koma neyðaraðstoð til Gaza. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna fundaði um helgina með forsætisráðherra Ísraels um vopnahlé til skamms tíma til að hægt verði að koma mat vatni, eldsneyti og lyfjum til nauðstaddra Palestínumanna. Forsætisráðherra Ísraels segir það hins vegar ekki koma til greina.

Finnst hæstv. ráðherra þessi upptalning innihalda nægar vísbendingar um að Ísraelsmenn hafi nú þegar gengið of langt, (Forseti hringir.) eða hvaða fleiri stríðsglæpi þarf Ísraelsher að fremja til að ráðherra (Forseti hringir.) hætti að hamra á rétti Ísraels til að verja sig og fari þess í stað að fordæma stríðsglæpi Ísraelshers og taka undir ákall allra mannúðarsinnaðra þjóða um vopnahlé strax?