132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Útgáfa talnaefnis um umhverfismál.

263. mál
[12:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég legg fyrirspurn fyrir hæstv. forsætisráðherra, sem er jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands, um útgáfu talnaefnis um umhverfismál. Tilefni fyrirspurnarinnar er það að Hagstofa Íslands gaf út fyrir tæpum níu árum afar handhægan, lítinn bækling um umhverfismál. Af þeim bæklingi má sjá að Hagstofan tekur hlutverk sitt afar alvarlega. Hún safnar tiltækum gögnum um umhverfismál frá sérhæfðum stofnunum á þessu sviði, hún hefur haldið þeim til haga og hún lítur á það sem sitt hlutverk að koma þeim upplýsingum á framfæri innan lands og utan.

Hagstofan getur í formála þessa rits um það að veigamikill þáttur í starfi hennar sé sá að sjá um þetta talnaefni, sjá um að það berist alþjóðastofnunum og gæta þess að alþjóðlegum stöðlum og viðurkenndum skilgreiningum í þessum efnum sé fylgt eftir.

Ég er þeirrar skoðunar að Hagstofan hafi unnið verulega þarft verk og tel þetta rit geyma afar nytsamlegar upplýsingar. Hér er t.d. hægt að lesa um ýmsa áhrifaþætti umhverfisins, landnýtingu í ýmsum löndum, útstreymi lofttegunda, orkumál, samgöngur, landbúnað, áhrif hans á umhverfið og fleira slíkt. Síðan getum við lesið um ástand umhverfismála, loftmengun og líffræðilegan fjölbreytileika, ástand hafsins. Við getum fræðst um umhverfisvernd, friðuð svæði og alþjóðlegt samstarf og aftast í ritinu er yfirlit yfir ýmsa samninga sem Íslendingar eru aðilar að á vettvangi umhverfismála.

Í ritinu er þess getið að efnið sé að stofni til fengið frá Svíþjóð, en það byggist á tölulegum samanburði á milli landa og tilteknum upplýsingum þar að lútandi, og þess vegna sé t.d. í ritinu ekki fjallað um einn mesta umhverfisvanda Íslendinga sem er jarðvegseyðingin. Þess er getið að engar upplýsingar liggi fyrir um samanburð milli Evrópulanda hvað þetta varðar en ljóst sé að jarðvegseyðing hafi orðið meiri á Íslandi en í flestum öðrum Evrópulöndum.

Nú er það ljóst að þetta rit er komið nokkuð til ára sinna. Það er mjög mikilvægt að miðla þessum upplýsingum og útfæra þær og þó að Umhverfisstofnun hafi hafið útgáfu Umhverfisvísa, sem eru líka mikilvægir, þá tel ég að þetta rit Hagstofunnar þurfi að endurnýja og hef þess vegna lagt þessar tvær fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra málefna Hagstofu Íslands:

Hvað líður útgáfu Hagstofunnar á riti á borð við Umhverfistölur sem út kom árið 1997 og er að vænta reglulegrar skýrslugjafar um umhverfismál frá stofnuninni?