132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:37]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra að þessi þjónusta er orðin einn af grundvallarþáttum sem fólk gerir kröfu um að sé í lagi og lítur á sem forsendu fyrir vali á búsetu. Það skiptir því miklu máli að ríkisvaldið hraði eftir föngum uppbyggingu á þessu kerfi þar sem markaðurinn sjálfur byggir það ekki upp á eigin forsendum.

Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að uppbygging á háhraðatengingu verði hraðað þannig að allir sem þess óska geti fengið tengingu eigi síðar en á árinu 2007. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld sýni vilja sinn í þessu verki, gefi út skýrar yfirlýsingar um að þau ætli að gefa fólki kost á þessari tengingu og fyrir tilskilinn tíma þannig að menn viti að tæknin muni koma og hún muni koma fljótt. Það skiptir öllu máli, virðulegi forseti.