132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[13:55]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér þótti hæstv. samgönguráðherra koma með mjög athyglisverða hugmynd þegar hann talaði um svokallaða skuggagjaldaleið á Sundabrautinni. Þetta er svolítið framandi fyrir mér, ég verð að viðurkenna það. Ég þarf betri tíma til að kynna mér þá hugmynd aðeins nánar áður en ég tala meira um hana. En þrátt fyrir það hljómar mjög spennandi að hugsanlega sé þar komin leið til að fara í gerð Sundabrautar og klára hana jafnvel í einum rykk, ef svo má segja, án þess að til aukagjaldtöku komi á þessari leið norður úr borginni.

Ég tel brýnt að farið verði í að leggja Sundabrautina alla leið upp á Kjalarnes. Vegurinn í gegnum Mosfellsbæ og um Kollafjörðinn er að mörgu leyti hættulegur og erfiður, sérstaklega á veturna. Ég veit það vel sjálfur því að ég fer hann á hverjum einasta degi. Ég tel því að það sem hæstv. samgönguráðherra sagði áðan um Sundabrautina hafi verið mikið fagnaðarefni.