132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Siglufjarðarvegur um Almenninga.

243. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Varðandi orð hæstv. ráðherra vil ég minna á að hugsanleg jarðgöng frá Fljótum til Siglufjarðar eða þar á milli voru hluti af umhverfismati jarðganga á þessu svæði. Upplýsingar um það eiga allar að liggja fyrir hjá Vegagerðinni, bæði um lengd, kostnað og framkvæmdatíma.

Varðandi orð hv. þm. Kristjáns Möllers þá blöskrar mér alveg. Ég minntist ekki einu orði á Héðinsfjarðargöng. Ég minntist á þá alvarlegu skýrslu sem birt hefur verið um stöðu vegarins fyrir Almenninga. Framtíð þess vegar er ekki björt, það eru orðin í skýrslunni. (Gripið fram í.) Mér er annt um öryggi Siglfirðinga og annarra sem um þennan veg fara. Samkvæmt skýrslunni geta stórar fyllur fallið úr veginum fyrirvaralaust. Þær gera ekki boð á undan sér. Það er rakið í skýrslunni að við sérstakar veðurfarsaðstæður, miklar úrkomur og þess háttar, aukist stórlega hættan á jarðsigi og jarðfalli.

Mér finnst með ólíkindum ef menn ætla ekki að taka þessa skýrslu alvarlega. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á hefur verið vitað um þetta vandamál, en skýrslan staðfestir það enn frekar og leggur áherslu á þá hættu sem þarna er fyrir hendi. Þessi vegur verður ekki öruggur. Hvað gerum við ef jarðfall verður skyndilega og vegurinn fer? Þetta er ekki framtíðarvegur eins og fram kemur í skýrslunni og þótt að hv. þm. Kristján L. Möller verði löngu fluttur suður og hættur að keyra þennan veg skiptir það samt máli að þarna séu öruggar vegasamgöngur. Skýrslan bendir einmitt til þess að vandlega þurfi að huga að málum þarna.