133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

stækkun hjúkrunarheimilisins Sóltúns.

117. mál
[14:20]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Tvennt verður til þess að ég kem í ræðustól. Annað er að hv. þingmenn sitja hér í þingsal og fá að heyra að búið sé að ákveða að verja svo og svo stórum upphæðum til uppbyggingar á hjúkrunarrýmum án þess að það hafi komið fyrir fjárveitingavaldið sjálft, þ.e. Alþingi.

Hitt er að það er með ólíkindum, þegar erindi eins og það sem kemur frá Sóltúni er sent inn til ráðuneytis, hve seint og illa erindum er svarað. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að framarlega í forgangsröð ráðuneytis væri m.a. uppbygging á Suðurlandi. Þar hafði fyrirtæki líka boðist til að byggja upp hjúkrunarrými, dvalarrými, og reyndar aðstöðu fyrir þá sem væru með þjónustu í heimahúsi, án framlaga úr Framkvæmdasjóði aldraðra en með gerð þjónustusamninga við ríkið. Ég held að erindið hafi verið þar í hátt á annað ár án þess að því væri svarað. Svo er farið í að byggja upp við Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem er alls ekki ódýrasti kosturinn.