135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

fullvinnsla á fiski hérlendis.

38. mál
[16:29]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrirtækin hljóta að taka afstöðu til þess með hvaða hætti þau vinna fiskinn út frá sínum eigin fjárhagslegu forsendum. Jafnvel þó að fiskurinn sé unninn hér á landi og út úr því gæti fengist einhver framlegð kunna þær aðstæður að koma upp að það sé einfaldlega fjárhagslega ábatasamara að selja fiskinn óunninn úr landi. Þetta verða fyrirtækin sjálf að gera upp við sig, þau verða að hafa frelsi til þess. Við sjáum það í hendi okkar að ef við ætlum að fara að skipta okkur af því væri mjög erfitt að búa til reglur um það hvar menn ættu að nema staðar.

Það er annað atriði sem hv. þingmaður hefur ekki staðnæmst við sem skiptir mjög miklu máli. Hluti af þeim fiski sem verið er að selja óunninn út í gámum er seldur í beinum viðskiptum á milli aðila, milli útgerðar og kaupanda erlendis. Ætti þá frá sjónarhóli hv. þingmanns að hafa það að skyldu að sá fiskur yrði boðinn upp á íslenskum fiskmarkaði? Það finnst mér ekki blasa við, menn þurfa þá að taka afstöðu til þess.

Við eigum að hafa reglurnar sem líkastar í meðhöndlun á fiskinum innan lands og utan og skapa þannig jafnræði milli fiskvinnslunnar hér á landi og erlendis.