136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í Fréttablaðinu í dag segir frá því að nú sé verið að undirbúa að senda bresk hergögn af stað til Íslands. Í fréttinni kemur jafnframt fram að ef hætta eigi við fyrirhugaðar heræfingar Breta í desembermánuði þurfi að taka ákvörðun um það í dag.

Fyrir nokkru lögðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um að fella niður loftrýmisgæslu Breta á Íslandi en hún hefur ekki enn komist á dagskrá þingsins. Hins vegar er ljóst af fréttum að brýnt er að taka af skarið í þessum efnum hið fyrsta.

Þegar þetta mál kom til umfjöllunar í fjölmiðlum fyrr í haust var haft eftir þáverandi starfandi utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, í Morgunblaðinu að hann teldi að ekki ætti að fá Breta hingað til lands til að sinna þessari gæslu því það mundi misbjóða íslensku þjóðarstolti. Hann sagði jafnframt að þeim skilaboðum hefði verið komið á framfæri við Atlantshafsbandalagið. Það er ljóst, virðulegi forseti, að við eigum í efnahagslegum átökum við Breta og erum í miðjum klíðum við að byggja efnahagslegar varnir fyrir land og þjóð. Því er eðlilegt að spyrja hvort það sé við hæfi að þjóð sem hefur beitt hryðjuverkalöggjöf á Ísland og Íslendinga komi hingað til heræfinga núna í desembermánuði. Á það að vera jólagjöf til íslensku þjóðarinnar?

Ég tek undir orð starfandi hæstv. utanríkisráðherra um að koma breskra hersveita hingað til lands í næsta mánuði misbjóði þjóðinni. Ég vil spyrja hv. formann utanríkismálanefndar, Bjarna Benediktsson, hvort hann sé ekki sama sinnis og hvort hann muni beita sér fyrir því að þingsályktunartillaga okkar vinstri grænna um þetta efni, að heræfingarnar falli niður, nái fram að ganga.