136. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við sem erum hér í dag gerum okkur öll grein fyrir því að staðan í viðræðum við Breta er gríðarlega viðkvæm. Ég held að við gerum okkur líka grein fyrir þeim miklu hagsmunum sem við höfum af því að ná að lenda þeim viðræðum sem við eigum í við Bretland á vinsamlegum nótum. Er heppilegt að þjóð sem hefur beitt okkur hryðjuverkalöggjöf komi hingað til að annast gæslu landsins? Nei, ég tel að það sé mjög óheppilegt, sérstaklega ef okkur hefur ekki tekist í millitíðinni að finna friðsamlega lausn í viðræðum við viðkomandi þjóð.

Við skulum líka hafa í huga hvernig til þessa samstarfs var stofnað. Það var fyrir okkar eigið frumkvæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins þar sem við óskuðum sérstaklega eftir því eftir brotthvarf varnarliðsins frá Keflavík árið 2006 að fundið yrði nýtt fyrirkomulag á loftrýmisstefnunni við Ísland. Á liðsaflaráðstefnum NATO höfum við farið þess á leit við bandalagsþjóðirnar að þær legðu til herafla sinn til þess að sinna þessu verkefni á Íslandi. Þetta hafa ýmsar þjóðir gert. Frakkar hafa komið hingað áður og Bretar eru meðal þeirra sem hafa fallist sérstaklega á þessa beiðni okkar. Þannig að við þurfum líka að hafa í huga að til þessa var stofnað fyrir okkar eigið frumkvæði. Hér er ekki um að ræða tvíhliða samkomulag milli Íslands og NATO heldur fyrirkomulag sem við höfum komið á í kjölfar þess að Bandaríkjaher fór frá Íslandi og það þurfum við jafnframt að skoða í þessu samhengi. Ég tek þó undir með hv. þingmanni að aðstæðurnar eru óheppilegar og það er á allan hátt mjög óheppilegt að þessu loftrýmiseftirliti verði sinnt af Bretum, finnist ekki í millitíðinni ásættanleg lausn á þeim deilum sem (Forseti hringir.) hafa verið uppi við þá.