137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[16:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því að við erum auðvitað í kolrangri sveiflu með hagstjórnina, núna þegar samdráttarskeiðið er ættum við að hafa svigrúm til skattalækkana, við ættum að hafa svigrúm til framkvæmda. En það sem ég var að benda á í ræðunni er að í raun og veru virðist vera sem öll stjórnmálaöfl á Alþingi hafi verið í þessari vitleysissveiflu. Það var farið í mikla útgjaldaaukningu í vegaframkvæmdum 2007, sem hefði verið gott að hafa innstæðu fyrir núna þegar þörf er á mannaflsfrekum framkvæmdum og það finnst mér sárt að sjá að sú innspýting sem þurfti að fara í velferðarkerfið, að mörgu leyti má halda því fram að það hafi verið þörf á því, að hún skyldi þurfa að ganga til baka núna.

Síðan er ég líka að vekja máls á þessu vegna þess að menn sögðu að það yrði samdráttur 2008/2009. Menn sáu kannski ekki fyrir að hann yrði svona mikill en menn sögðu það samt þannig að á þessum tíma voru forsendur til að bíða með útgjaldaaukningu og læra af reynslunni en það var ekki gert. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að menn hefðu ekki átt að fara svona geyst í skattalækkanir í góðærinu heldur, ég held að það sé rétt.