138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

framhaldsdeild fjölbrautaskóla á Patreksfirði.

133. mál
[15:10]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér er í gangi og þakka fyrir að þetta mál skuli vera tekið upp af hv. þingmanni. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt og þetta verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum hefur gengið mjög vel. Ég er ánægður að heyra hversu mikil jákvæðni er hér í þingsal fyrir þessu, bæði hjá þingmönnum landsbyggðar og ekki hvað síst mörgum þingmönnum höfuðborgarsvæðisins. Þetta er mjög mikilvægt. Það er mörgum börnum mjög erfitt að fara að heiman 16 ára gömul í fjölbrautaskóla. Það veldur því oft að þau falla úr námi og hætta. Jafnframt er það gríðarlega kostnaðarsamt fyrir margar fjölskyldur að senda börnin langt að heiman, leigja húsnæði og annað í þeim dúr. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að skoða þetta mál áfram og skoða þau byggðarlög sem hafa lýst yfir áhuga á að hefja slíkt nám og nefni þar Hvammstanga, Hólmavík og fleiri staði í þeim efnum. (Forseti hringir.)