138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

lán og styrkir frá Evrópusambandinu.

118. mál
[15:49]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra en það eru tvö atriði sem ég vil fá að hnykkja á hér. Hv. fyrirspyrjandi Vigdís Hauksdóttir talaði um umsókn okkar að Evrópusambandinu sem lausn á núverandi fjárhagsvanda þjóðarinnar. Ég vil minna á það að aðildarumsókn að Evrópusambandinu hefur verið á stefnuskrá Samfylkingarinnar frá stofnun þess flokks.

Varðandi hraðann þá er Ísland löngu tilbúið og langt komið vegna samstarfs og samninga sem nú þegar eru í gildi á vettvangi Evrópuþjóða, m.a. á Evrópska efnahagssvæðinu. Það hlýtur að hafa sitt að segja um það hversu fljótt má vænta niðurstöðu í það mál.

Rétt í lokin vil ég minna hv. þm. Ásmund Einar Daðason á það — hann telur að ekki sé meiri hluti fyrir umsókn að Evrópusambandinu hér á þingi. Við samþykktum (Forseti hringir.) það fyrr í vor að fara í umsókn, fara í þetta ferli, bara svona rétt til upprifjunar.