138. löggjafarþing — 23. fundur,  11. nóv. 2009.

útganga fulltrúa Íslands á allsherjarþingi Sþ.

131. mál
[18:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég var ekki staddur í salnum þegar þetta gerðist. Ef ég man rétt þá var það nokkrum dögum áður en ég hélt ræðu mína. Af því hv. þingmaður nefnir þá milliríkjadeilu sem hefur verið okkur þungbærust þá var hún gerð að umræðuefni í þeirri ræðu. Í þessum efnum, þegar svona kemur upp, þá könnum við Íslendingar oft afstöðu þeirra þjóða sem við höfum verið samferða í gegnum tíðina í mörgum efnum. Í því tilviki sem hv. þingmaður nefnir hér gengu ríki eins og Svíþjóð, Noregur og öll EFTA-ríkin ekki út, sem dæmi. Hið sama gerðist ef ég man rétt — kannski ekki öll EFTA-ríkin — á þessari ráðstefnu sem ég var að tala um í Durban. Ég var að nefna hér til þess að upplýsa hv. þingmann um það og undirstrika þá staðhæfingu mína að ekki væri hægt að útiloka að slíkt gerðist, en mikið þyrfti að koma til og hugsanlega það tilefni sem ég gerði hér að umræðuefni og hv. þingmanni þótti lítið til koma.

Hv. þingmaður nefndi líka Icesave. Ég spyr hv. þingmann: Af hvaða tilefni og hvar áttu menn að ganga út til þess að mótmæla Icesave? Af samningafundum eða einhvers staðar annars staðar? Við höfum verið að semja um Icesave við þessi tvö (ÞKG: Já, til dæmis.) ríki og við höfum verið að gera það í góðri trú um að það væri farsælt fyrir Ísland. Hvað sem mönnum finnst um Icesave, þeir sem eru á móti Icesave hafa sín rök, hinir sem gengu til samninga höfðu þau líka. Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. þingmanni hver það er sem hefur með mest elegant hætti flutt rökin fyrir því að það væri besta leiðin að ganga til samninga í því tiltekna máli.

Ég vona svo að hv. þingmaður hafi skilið það sem ég var að reyna að segja varðandi þessa fræðilegu spurningu. (Forseti hringir.) Auðvitað eiga stjórnmálamenn aldrei að svara fræðilegum spurningum, um atvik sem kynnu að koma upp, en ég gerði það eigi að síður.