139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

122. mál
[15:25]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi nú ekki annað en: Mikil er trú þín, hæstv. iðnaðarráðherra, mikil er trú þín. Að fullyrða það hér að ekki hafi verið erlend fjárfesting í atvinnulífi, (Gripið fram í.) erlend fjárfesting hefur náttúrlega aukist alveg gríðarlega hér á landi á síðustu árum. (Gripið fram í.) Aðstæðurnar hafa verið að breytast mjög mikið. Það sem var forskot okkar, virðulegi forseti, gagnvart erlendum fyrirtækjum er að þau voru hér velkomin til viðræðu. Þau gátu treyst því að hér væri pólitísk stefna þó vissulega skuli ég taka undir það að það mætti vera stefnumótun til lengri tíma. Það er það sem við þurfum að vinna að. Ég skal vissulega taka undir það.

En hér var pólitískur stöðugleiki gagnvart erlendri fjárfestingu. Hér var pólitísk sátt í ríkisstjórnarflokkunum um það hvert skyldi stefna. Það var eitt af því sem aðilar gátu á þeim tíma treyst, sættu sig jafnvel við hærra orkuverð hér en annars staðar vegna þess að stöðugleikinn var fyrir hendi. Þessu er búið að henda fyrir róða af þessari ríkisstjórn, virðulegi forseti. Hér ríkir pólitískur óstöðugleiki. Það kemur klárlega fram í þeirri skýrslu sem vitnað hefur verið í. Það er pólitískur óstöðugleiki og stefnuleysi. Að koma síðan og fullyrða að það sé einhver skýr stefna við þetta ríkisstjórnarborð og þar sé talað skýrum rómi þegar verið er að fæla frá, með aðgerðum og aðgerðarleysi, fjölda fyrirtækja sem hafa mikinn áhuga á að byggja hér upp.

Það er ekki svo langt síðan að fulltrúar þeirra stofnana sem hafa með þessa kynningu að gera fyrir Ísland á erlendum vettvangi komu á fund iðnaðarnefndar. Það var samdóma álit allra þessara aðila á þeim tíma að tækifærin hefðu aldrei verið eins og nú. Áhuginn fyrir því að fjárfesta á Íslandi hefði aldrei verið eins mikill og nú. Vandamálið lægi í því að ekki væri hægt að gefa skýr svör. Ekki væri hægt að svara því hvenær menn gætu afhent orku. Engu hægt að svara um það hver yrðu næstu skref (Forseti hringir.) og það er að fæla hér frá, fyrirtækin fara annað eins og dæmin sanna.