139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[16:18]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég mun reyna að svara þessu eftir bestu getu. Vissulega er það svo með krónuna að með hana munu Íslendingar áfram bera skarðan hlut frá borði miðað við nágrannaþjóðirnar. Íslenska krónan er einfaldlega ekki burðugri en það. Ríkisstjórnin er á ferð með íslenskt efnahagslíf inni í nákvæmlega það sama umhverfi og var í gjaldmiðilsmálum fyrir hrun. Að vísu segist Seðlabankinn nú ætla að nota önnur tæki og tól til að hafa hemil á genginu, en ég á einfaldlega eftir að sjá það takast. Ég hef vantrú á því.

Við munum ekki fá evru í gegnum Evrópusambandið fyrr en eftir mörg ár. Ég hef kallað eftir því að gerðar verði rannsóknir á því einfaldlega að Íslendingar taki einhliða upp annan gjaldmiðil, alla vega næstu fimm árin, því að við munum ekki fá evru hingað inn fyrir þann tíma. En við þurfum með einhverjum hætti að losna úr þeirri krónukreppu sem við búum við.