139. löggjafarþing — 23. fundur,  9. nóv. 2010.

aðgerðir til að stuðla að sátt við heimilin.

141. mál
[18:38]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Ég ætla að klára þetta með flötu niðurfellinguna. Við viljum nálgast þau heimili sem eru í mestum vanda með öðrum hætti. Við teljum að flöt niðurfærsla muni ekki skila þeim árangri sem menn hafa talað fyrir.

Atvinna í álverum — hversu mörg álver þarf að byggja? Það þarf fyrst og fremst að byggja það álver sem er í pípunum á Suðurnesjum. Síðan er ég tilbúinn til að skoða hvaða aðrar verksmiðjur eða hvaða annan orkufrekan iðnað við getum farið í. Við eigum að leita að fjölbreytni í því og fjölga þannig eggjunum hjá okkur en í grundvallaratriðum eigum við að byggja á orkufrekri starfsemi. Það er þar sem við höfum öll tækifæri til og við eigum að fara þá leið. Fyrst og fremst eigum við að byggja þetta álver suður frá og ef ekki býðst annað en það sem mönnum hefur litist best á, á Bakka, er allt í lagi að byggja annað álver þar. En ég tel að við eigum að horfa miklu víðar, það eru mikil tækifæri til þess og það hefur komið ítrekað fram í viðræðum okkar í iðnaðarnefnd við þá sem eru að kynna Ísland á þessum vettvangi að tækifærin séu mjög fjölbreytt. Vandamálið er bara að menn vilja ekki fara í virkjanirnar.

Það eru full rök fyrir því, virðulegi forseti, að auka þorskkvótann um 35 þús. tonn og við förum ágætlega yfir það í tillögum okkar, í greinargerð með tillögunum. Hrygningarstofninn hefur ekki í 40 ár verið eins stór og hann er í dag, með tveimur undantekningum, er kominn yfir 300 þús. tonn. Viðmiðunarstofninn hefur líka verið að stækka, það er áætlað að hann verði um 902 eða 905 þús. tonn á næsta ári. Við vorum með aflareglu sem var 25% af viðmiðunarstofni þorsks. Við lækkuðum það niður í 20% og vildum ganga varlega. Það hefur gefið gríðarlegan árangur, við sjáum mikla styrkingu í stofninum. Við teljum því eins og margir telja að full rök séu fyrir því að hækka þetta veiðihlutfall núna, það sé alveg réttlætanlegt og það sé hægt að gera það á vísindalegum forsendum. Það mun ekki hamla því að þorskstofninn haldi áfram að vaxa en vissulega mun hann vaxa eitthvað hægar en ef við héldum okkur við 20%