140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

Málefni innflytjenda.

[14:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Ég fagna þessari umræðu og ég verð að segja að ég er sammála því sem hér hefur komið fram, sérstaklega varðandi íslenskukennsluna ...

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að beina orðum sínum að forseta.)

Já, forseti. Ég er sérstaklega sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvað móðurmálið varðar og íslenskukennsluna. Það er náttúrlega rosalega mikilvægt að lögð sé áhersla á móðurmálið. Síðan langaði mig líka að benda á að það tekur langan tíma að læra íslensku.

Til að fólk geti nýtt sér þjónustu opinberra stofnana og fengið upplýsingar um réttindi sín þurfum við einhvern veginn að samþætta málefni innflytjenda og hælisleitenda. Ferlið er svo flókið að þegar fólk hefur beðið mig um aðstoð hef ég margoft rekist á veggi og þurft að fara á milli margra stofnana og ráðuneyta til að fá einhverja úrlausn. Því velti ég fyrir mér, og ég hef áður beint þeirri spurningu til hæstv. innanríkisráðherra, hvort ekki sé tilefni til að skoða það að setja á fót embætti umboðsmanns innflytjenda og hælisleitenda til að það sé til einn staður þar sem fólk getur fengið upplýsingar um hvert það eigi að snúa sér til að fá úrlausn á sínum málum eða sótt sér þjónustu eða ráðgjöf. Ég segi þetta vegna þess að ég hef verið í þeirri stöðu að fólk hefur mjög oft komið til mín til að fá aðstoð og ég hef heyrt margar sögur þar sem fólk hefur rekist á veggi og síðan týnist þessi þekking og fólk verður að byrja upp á nýtt. Þetta eru oft mjög viðkvæm og erfið mál.

Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra (Forseti hringir.) hvort hann sé tilbúinn til að íhuga þessa tillögu og hvert sé álit hans á henni.