140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mér finnst athyglisvert að heyra það sjónarmið þingmannsins að þessi tillaga sé ákveðin nálgun í samgöngumálum svæðisins sem eru í óleysanlegum hnút. Sannleikurinn er nefnilega sá að vegna þess hvað svæðið er einstök náttúruperla og lífríki þar fjölbreytt er vandi að leggja vegi um svæðið án þess að hægt sé að beita umhverfissjónarmiðum til að koma í veg fyrir hinar sömu vegalagnir. Það er eiginlega sama hvaða leið yrði farin það yrði alltaf hægt að bera við umhverfissjónarmiðum til þess að standa í vegi fyrir þeim leiðum sem til boða standa. Það er klemman sem við erum í. Ég tel því að við verðum að leysa það mál núna og taka mannlífið sjálft og atvinnulífið á svæðinu í forgang áður en við stígum hitt skrefið, að lyfta undir umhverfissjónarmið með stofnun þjóðgarðs. Það eru satt að segja umhverfissjónarmið sem hafa staðið í vegi fyrir samgönguframkvæmdum þarna með fullri virðingu fyrir umhverfissjónarmiðum. Sjálf yrði ég mjög stolt að geta séð einhvern tímann í framtíðinni þetta svæði sem þjóðgarð, svæðið verðskuldar það vissulega, en hinn hnútinn held ég að við þurfum að leysa fyrst.

Málið kemur núna til átekta tilheyrandi fagnefndar. Ég vona bara að menn fjalli um það af tilhlýðilegum skilningi og virðingu fyrir öllum sjónarmiðum.