140. löggjafarþing — 23. fundur,  15. nóv. 2011.

þjóðgarður við Breiðafjörð norðanverðan.

238. mál
[16:37]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra hennar innlegg í þetta. Það er auðvitað hárrétt að nokkur svæði falla undir þau mörk sem tillagan gerir ráð fyrir sem eru friðlýst nú þegar. Það er hárrétt ábending að heimamenn hafa tekið frumkvæði og sýnt áhuga á því að fá friðlýsingu á Látrabjarg og Rauðasand. Það er engin tilviljun að þau svæði hafa orðið fyrir því vali hjá heimamönnum vegna þess að samgönguþátturinn er ekki hamlandi þar. Það er svæðið í námunda við Þorskafjörð og í austanverðri Barðastrandarsýslu sem er hinn hamlandi þáttur, þar sem áhyggjur manna lúta að uppbyggingu stofnvegar.

Önnur svæði, eins og svæði við Látrabjarg og Rauðasand, eru allt öðruvísi í sveit sett. Það er þess vegna sem sveitarstjórnarmenn og heimamenn hafa lýst áhuga á því — heimamenn sjá auðvitað uppbyggingarmöguleika og ýmis tækifæri í því að geta lyft umhverfinu og náttúrunni og eflt ferðaþjónustu á svæðinu og boðið upp á náttúruupplifanir þar. Heimamenn hafa því sýnt fulla ábyrgð og fullan áhuga í því efni sem við skulum ekki horfa fram hjá.

Það er kannski ekki síst í því ljósi sem ég flutti mál mitt hér í athugasemd við hv. þm. Róbert Marshall áðan vegna þess að hinum megin í sýslunni, í námunda við Þorskafjörð, þar er flöskuhálsinn, þar finnst mér að þurfi að forgangsraða á þann veg að fyrst sé litið til mannlífsþarfanna og atvinnulífsins, þ.e. að ljúka við það að koma þarna á boðlegum samgöngum — nútímavegi, greiðum vegi — og leysa það mál áður en við tökum hina umræðuna.